144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta þurfi að kanna betur. Við höfum í fjárlaganefnd meira verið að skoða reksturinn og hvað það þýðir fyrir rekstur skóla úti á landi þegar sveigjanleikinn er tekinn í burtu og nemendum fækkar.

Hins vegar er þetta einmitt gott dæmi um það þegar stórum málum í skólastefnu landsins er laumað inn í fjárlagafrumvarp án allrar faglegrar umræðu. Það á eftir að taka faglegu umræðuna, bæði úti um land varðandi rekstur og uppbyggingu framhaldsskólakerfisins en líka varðandi jafnræði og réttindi eins og hv. þingmaður nefnir hér.

Síðan varðandi skilyrði, svo að ég komi að fyrri spurningu hv. þingmanns, þá er mjög einkennilegt að hv. fjárlaganefnd sé að stýra stofnunum með alls konar skilyrðum: Þú færð þetta framlag, góði minn, ef þú gerir eins og við segjum þér að gera. Það hlýtur að orka tvímælis.