144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann, í fyrsta lagi vegna þess að honum hefur orðið tíðrætt um stöðu heilbrigðiskerfisins í forgangsröðun þeirri sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og tengdum frumvörpum. Hann tók sæti á þingi eftir kosningarnar 2013 og ég bið hann að meta í nokkrum orðum hver hann telur forgangsmál þessarar ríkisstjórnar. Ef það er ekki heilbrigðiskerfið, eins og ítrekað hefur komið fram í máli þingmannsins, hvaða mál setur þá þessi ríkisstjórn í forgang? Þetta var í fyrsta lagi.

Það sem hefur valdið mér sérstökum áhyggjum í umfjöllun um þetta fjárlagafrumvarp til viðbótar við auðvitað innihald þess er það í hve ríkum mæli verið er að taka stefnumarkandi ákvarðanir með því bara að breyta fjárlögum, þ.e. við sjáum dæmi um breytingar á framhaldsskólunum, Ríkisútvarpinu, atvinnuleysisbótatímabilinu o.s.frv. þar sem viðkomandi breyting er ekki tekin fyrir hjá viðkomandi fagnefndum sem eiga eðli málsins samkvæmt, eða ættu í góðu samfélagi, tel ég vera, að fjalla um stefnumörkun til lengri tíma. Íslenski mátinn og sá máti sem núverandi ríkisstjórn virðist vera að festa í sessi er að stefnumörkun til langs tíma sé í raun ekki fyrir hendi, heldur séu menn alltaf að vinna þetta bara í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. (Forseti hringir.) Maður veltir þá fyrir sér stöðu þingnefndanna yfir höfuð og stöðu stefnumörkunar í samtali framkvæmdarvaldsins og þingsins (Forseti hringir.) í efnislegum atriðum.