144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Maður býður engum starfsmanni upp á að setja honum reglur og skyldur, hvað þá setja honum reglur í lögum með orðum eins og „ef þú brýtur lög getur það varðað refsingu“, án þess að gera honum á sama tíma kleift að uppfylla þær, eins og RÚV. Þeir sem þar stjórna hafa þá lögbundnu skyldu að gera ákveðna hluti. Stjórn RÚV, þar sem sex af níu eru skipaðir af stjórnarflokkunum, segir að það þurfi meira fé til að sinna þessu lögbundna hlutverki og þá eiga menn að vera heiðarlegir og breyta lögunum um RÚV, ekki vera með þetta skítamix í fjárlögunum. Ég held að það sé það sem hv. þingmaður sé að grennslast fyrir um.

Þetta batterí, RÚV, sem á meðal annars að sinna, lögum samkvæmt, því að gagnrýna stjórnvöld í þessu lýðræðislega samfélagi okkar og hafa það lýðræðislega hlutverk, er samt sem áður ofboðslega háð fjárveitingum hins opinbera. Það eru ekki langtímasamningar sem tryggja því fjármagn o.s.frv., á hverju ári er bara hægt að höggva. Þetta er ekki svona í nágrannaríkjunum. Við erum langverst hvað þetta varðar ef við tölum bara um sjálfstæðið.

Varðandi forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sáum við hana strax á sumarþinginu. Forgangsröðunin er að uppfylla kosningaloforð til umbjóðenda sinna sem eru ekki fyrst allir landsmenn. Fyrst er það hjá Sjálfstæðisflokknum sjávarútvegurinn sem hafði, nota bene, fengið hvalreka í formi lægri krónu og var með methagnað o.s.frv. Nei, samt átti að forgangsraða því að lækka á hann gjöld meðan aðrir þurftu að bera alla byrðina þannig að það er alveg ljóst. Hjá Framsóknarflokknum var það að uppfylla kosningaloforð sitt um (Forseti hringir.) skuldaleiðréttinguna. Maður á kannski ekki að álasa (Forseti hringir.) þessum flokkum fyrir að forgangsraða svona. Svona er þetta, við skulum bara vera heiðarleg með það, svona hefur forgangsröðun flokkanna verið. Ég tek síðan seinna forgangsröðina á þessu þingi.