144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 við 3. umr. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er mjög margt í fjárlögunum sem er full ástæða til að vera ánægð með, til að mynda þá staðreynd að við erum nú öðru sinni að leggja upp með það að samþykkja hallalaus fjárlög. Af hverju skiptir það máli að ríkissjóður sé rekinn hallalaus? Vegna þess að stærsti útgjaldaliður ríkisins eru vextir. Ríkið greiðir tugmilljarða króna í vexti á hverju einasta ári og það er okkur mikilvægt að minnka skuldir ríkissjóðs þannig að vaxtakostnaðurinn geti farið lækkandi.

Ég vil líka segja að það er auðvitað hlutverk stjórnarandstöðu hverju sinni að benda á það sem má betur fara hjá stjórnvöldum, hjá þeim sem eru við völd og það hefur stjórnarandstaðan svo sannarlega gert. En það er líka mjög margt — hér var laumað til mín litlum gulum miða með athugasemd sem ég mun koma inn á síðar í mínu máli — jákvætt í fjárlögunum Mig langar að koma inn á nokkur atriði og ég vil byrja á að ræða um heilbrigðismálin.

Ég vil taka undir með þeim fjölmörgu sem hafa komið upp í þessari umræðu og sagt að það sé mikilvægt að veita aukið fjármagn til heilbrigðismála. Ég vil taka undir það að mjög mikilvægt er að veita aukið fjármagn til viðhalds á Landspítalanum. Ég vil þó benda á þá staðreynd að í tíð síðustu ríkisstjórnar var skorið mjög mikið niður til heilbrigðiskerfisins, þá staðreynd að þessi ríkisstjórn hefur verið að auka fjármagn til heilbrigðismála og þá staðreynd að hún veitir núna aukið fjármagn til Landspítalans. Ég vil segja að það er mjög mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut að auka fjármagn til heilbrigðismála.

Annað mál sem ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til er háskólarnir. Hér hefur verið talsvert mikil umræða um það á milli manna að eyrnamerking fjármagns, m.a. til Háskólans á Akureyri og annarra skóla, ætti að vera með öðrum hætti. En ég vil benda á þá staðreynd að ríkisstjórnin veitir aukið fjármagn til háskólakerfisins, til háskólanna í heild sinni, þó að við getum deilt um sundurliðanir á því.

Annað verkefni sem ríkisstjórnin er setja af stað, sem er mjög jákvætt, snýr að fjarskiptum. Ríkisstjórnin er að setja af stað verkefni til ljósleiðaravæðingar á öllu landinu og eru veittar 300 milljónir til þess. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að setja í gang verkefni sem miðar að því að ljósleiðaravæða allar byggðir landsins og það er mjög jákvætt.

Eitt verkefni enn sem meiri hluti fjárlaganefndar setti inn við 2. umr. snýr að því að auka viðhald á innanlandsflugvöllum. Lagt er til að veittar verði 500 millj. kr. til þess verkefnis þó að milli umræðna sé ákveðið að hluti þess fjármagns renni til svokallaðs flughlaðsverkefnis á Akureyri, sem er jákvætt. Þetta eru allt saman jákvæð verkefni og atriði sem fjármagn er veitt til.

Eitt enn sem ríkisstjórnin er að gera sem er mjög jákvætt er að setja skatt á þrotabú föllnu bankanna, skatt sem var undanskilinn í tíð fyrri ríkisstjórnar og var settur inn af þessari ríkisstjórn. Það er mjög jákvætt skref. Það hefur verið nokkuð fjallað um það af hálfu stjórnarandstöðunnar að ekki hefði verið hægt að setja þennan skatt á fyrr. En það hefur meðal annars komið fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, sem var ráðherra og þingmaður í síðustu ríkisstjórn, að vissulega hefði það verið erfitt á fyrri hluta síðasta kjörtímabils en undir lok kjörtímabilsins og á seinni hluta kjörtímabilsins hefði verið hægt að setja þann skatt á, en fyrrverandi ríkisstjórn ákvað hins vegar að gera það ekki.

Eitt hefur verið talsvert í umræðunni hér og fyrr í dag og snýr að fjárveitingum til innanlandsflugvalla. Menn hafa haft uppi orð um að það að veita fjármagn til innanlandsflugvalla og gera arðsemiskröfu til Isavia geri það einhvern veginn að verkum að verið sé að fækka störfum í Reykjanesbæ, fækka störfum í Keflavík og hægja á uppbyggingu í Keflavík. Þessu er ég allsendis ósammála og vil segja að það kom mjög skýrt fram á fundum fjárlaganefndar að Isavia hefði tvær leiðir til þess að fjármagna sínar framkvæmdir. Það væri annars vegar með hagnaði og hins vegar með lántökum sem yrðu svo greiddar áfram með hagnaði.

Í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur hér áðan og hefur reyndar komið fram í máli formanns Samfylkingarinnar líka, kom fram gagnrýni á þetta og m.a. sagt að þetta mundi auka vaxtakostnað Isavia mjög mikið. En það sem skýtur hins vegar mjög skökku við er að í þessu sama nefndaráliti er gagnrýnt, og kom svo fram síðar í umræðum í dag hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að verið væri að klára flutning á ákveðnum verkefnum yfir til Isavia, sem reyndar hófust í tíð hv. þm. Kristjáns Möllers sem þá var hæstv. ráðherra. Þar er verið að flytja restina af flugbrautum og öðru inn í Isavia, m.a. til þess að styrkja eiginfjárgrunninn og það á síðan að gera það að verkum að Isavia fær betri vaxtakjör. Þá má allt eins leiða líkur að því að með því að gagnrýna þá framkvæmd og leggjast gegn því að þessir flutningar klárist séum við einmitt, ef málflutningur Samfylkingarinnar stenst skoðun, að færa störf úr Reykjanesbæ en því er nú alls ekki að heilsa, vegna þess að þetta á að gerast ef maður lækkar eiginfjárkröfuna og vaxtakostnaðurinn hækkar. Nú hristir hv. þm. Oddný Harðardóttir hausinn, en þetta er auðvitað staðreynd. Staðreyndin er sú að það á að keyra áfram á sama framkvæmdahraða í Keflavík en það á einnig að halda áfram með innanlandsflugvellina og byggja þá upp. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum þetta samhliða, bæði hvað varðar innanlandsflugvellina og Keflavík. Það verður að segjast að þegar farið er ofan í þann málflutning sem Samfylkingin heldur uppi í þessu máli þá stenst hann ekki skoðun og hefur komið fram í umræðunum í dag.

Varðandi þau mál sem hafa verið til umræðu og voru skoðuð milli umræðna, og kom m.a. fram í máli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hér áðan þegar hún gerði grein fyrir sínu nefndaráliti, eru tvö mál sem mig langar að koma inn á. Í fyrsta lagi er það Ríkisútvarpið, sem var tekið til umfjöllunar á milli umræðna í fjárlaganefnd. Öll stjórn Ríkisútvarpsins mætti á fund fjárlaganefndar, allir aðilar í stjórn og fulltrúar hinna ólíku flokka. Það var mjög góður fundur og mjög upplýsandi. Þar kom m.a. fram að þetta sneri ekki hvað síst að árinu 2016 vegna þess að reikningsuppgjörsár Ríkisútvarpsins skaraðist, væri ekki almanaksárið og skaraðist þess vegna. Ég held að þetta sé mál sem þurfi að skoða betur á næsta ári. Hins vegar kom líka fram í umræðunum að það er mjög mikilvægt til frambúðar að Ríkisútvarpið skoði hvernig það ætlar að aðlaga sig að breyttri menningu og breyttri fjölmiðlaflóru. Það hefur meðal annars komið fram að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins hafa verið að dragast saman og menn spá því að þær muni gera það áfram, ekki eingöngu vegna þess að sett séu einhver takmörk af hálfu ríkisins heldur vegna þess að auglýsingamarkaðurinn er að breytast. Þetta kom fram á fundi og ég hef ávallt lýst því yfir og gerði það í sérstökum umræðum að ég er áhugamaður um Ríkisútvarpið og vil að það haldi áfram öflugri starfsemi, en hins vegar verður Ríkisútvarpið að aðlaga sig að breyttum tímum. Mér fannst þetta mjög góður fundur með stjórn Ríkisútvarpsins og ég hygg að þetta hljóti að verða áfram til skoðunar á nýju ári.

Hitt málið sem mig langar að koma inn á er Bankasýslan, sem hefur verið til skoðunar og umræðu. Bæði hygg ég að hún hafi verið til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og eins á fjárlaganefndarfundi sem haldinn var í gær. Ég vil fagna því að nú sé að koma aukið fjármagn inn í Bankasýsluna, ég vil fagna því að búið sé að tryggja að Bankasýslan haldi starfsemi sinni áfram. Ég tek undir þau sjónarmið að það er mjög mikilvægt að tryggja armslengdarsjónarmiðin. Hvort það gerist með sjálfstæðri Bankasýslu eða einhverjum öðrum hætti, það er svo eitthvað sem þingið þarf að taka afstöðu til á nýju þingi enda hefur hæstv. fjármálaráðherra boðað frumvarp þar að lútandi. Það er mjög eðlilegt að Bankasýslunni sé tryggt eðlilegt fjármagn á starfstíma meðan þingið fer yfir það mál og vegur og metur hvernig hægt sé að tryggja armslengdarsjónarmiðin og með hvaða hætti við ætlum að haga þessum málum til frambúðar.

Síðan vil ég ítreka það, af því að ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, að vissulega er það hlutverk stjórnarandstöðu að gagnrýna það sem ríkisvaldið gerir og hafa eftirlit með því að meiri hlutinn standi við sitt. Það eru ugglaust atriði í fjárlagafrumvarpinu, og það hefur komið hér fram í umræðu, sem eru ekki fullkomin, skárra væri það. Hlutirnir eru alltaf að taka breytingum og áherslur eru misjafnar. En ég vil þó segja að það er margt mjög jákvætt í frumvarpinu og ég er mjög ánægður með meginþætti þess. Ég er sérstaklega ánægður með það að annað árið í röð erum við að klára fjárlagafrumvarp fyrir jól þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóði sé skilað hallalausum, þrátt fyrir að við aukum fjármagn til mikilvægra mála eins og heilbrigðismála, háskólamála og samgöngumála, og setjum af stað verkefni í fjarskiptamálum o.fl. Þetta er ég mjög ánægður með og ég vonast til þess að þegar efnahagurinn batnar meira getum við aukið enn frekar í þessi mál. Ég tek undir með öllum þeim sem hér hafa talað um heilbrigðismálin sérstaklega að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim og við eigum að leitast við að veita meira fjármagn þar inn og halda áfram á þeirri braut sem er verið að marka í fjárlagafrumvarpinu og á að gera í því næsta líka.