144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom fram hjá stjórn Ríkisútvarpsins að það er ekki eins og þau séu ekki búin að gera akkúrat þetta. Þau hafa skoðað markaðina í kringum sig og eru alveg með það á hreinu hvernig þetta er gert þar.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og við höfum aðeins rætt í dag er Háskólinn á Akureyri. Telur þingmaðurinn að úthlutun úr 617 millj. kr. pottinum sé sanngjörn gagnvart HA? Hefði hann viljað skipta þessum fjármunum með öðrum hætti? Mun hann styðja tillögu minni hlutans, sem verður væntanlega borin upp til atkvæða, með breytingu á lögskýringu? Ef hv. þingmanni finnst að það eigi að vera nám í heimskautarétti, af hverju var þá ekki lögð sérstök áhersla á það? Hér var talað um stórsókn af hálfu formanns fjárlaganefndar varðandi Háskólann á Akureyri. Þess sér nú ekki stað í fjárlagafrumvarpinu. (HöskÞ: Stórsókn.) Hér kallar hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson slíkt hið sama. Ég held að þið ættuð að skammast ykkar, hv. þingmenn, því að fjármunir fylgja ekki þeim stóru lýsingarorðum sem hér eru viðhöfð. [Frammíköll í þingsal.]