144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér leikur hugur á að vita, úr því að hv. þingmaður telur það svo eðlilegt og sjálfsagt að meiri hluti fjárlaganefndar hlutist til um námsframboð og einstakar námsgreinar í Háskólanum á Akureyri, hversu langt meiri hlutinn hefur hugsað sér að ganga almennt í því að taka að sér að stýra námsframboði í háskólum landsins. Hefur meiri hlutinn hugað að því hvort það séu réttar áherslur í námi í Listaháskólanum, hvort þar ætti kannski að leggja meiri áherslu á skúlptúrgerð eða pastelmálun? Hefur meiri hlutinn velt því fyrir sér hvort það sé lögð nóg áhersla á sanskrít í Háskóla Íslands o.s.frv.? Hvert er meiri hlutinn að fara með því að ætla sér að grípa inn í málefni sjálfstæðra háskóla og skipa þeim fyrir verkum með einstaka námsáfanga?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um fyrirhugaðan afgang, því þó að hv. þingmaður sé mjög upptekinn af fortíðinni væri gaman að skyggnast aðeins inn í framtíðina: Hvað segir hv. þingmaður um heildarniðurstöðuna sem lítið hefur verið rædd hér í dag? Þar á ég við áætlaðan 3,5 milljarða afgang af ríkissjóði, sem mér telst til að sé innan við 0,2% (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu. Er það ekki svolítið lítið (Forseti hringir.) á öðru ári frá því að fjárlögin komust þó í jafnvægi 2013?