144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú margt hægt að tala um í ræðu hv. þingmanns. Ég tek undir með honum að ánægjulegt er að verið sé að bæta í flugvellina, þó að ég sé ekki endilega sammála þeim inngripum sem felast í bókun varðandi Isavia, það er svo annað mál. Varðandi flughlaðið er það jú heimild en ekki bein fjárútlát en vissulega áfangi út af fyrir sig.

Ég ætla að halda áfram að ræða málefni Háskólans á Akureyri og spyr hv. þingmann hvort hann hafi lesið áskorun og ályktun háskólaráðs Akureyrar frá því í dag þar sem beiðni er um að lokatillögur fjárlaganefndar séu endurskoðaðar um útdeilingu fjármuna til háskólastigsins og að Háskólanum á Akureyri verði gert kleift að viðhalda þeirri stefnu að bjóða landsmönnum upp á öflugt fjarnám í heimabyggð sinni.

Síðan vil ég segja að rektor lýsir í pósti til okkar þingmanna Norðausturkjördæmis miklum vonbrigðum með skilyrðinguna við texta og biður um að það sé dregið til baka. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er hann tilbúinn að fara gegn rektor? Og ef hann hafði svona mikinn hug á því að hafa norðurskautsnámið, (Forseti hringir.) af hverju kom hann ekki með stórsókn inn og lagði til þess peninga? Í annað eins var sett milli umræðna.