144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að bregðast við því fyrsta sem kom fram í andsvari hv. þingmanns. Hún sagði að hún væri ekki sammála hvað varðar Isavia. Er hún þá að segja að hún sé ekki sammála því að nota hinn mikla hagnað sem kemur af millilandafluginu í innanlandsflugið? Ég mundi vilja fá mjög skýr svör. Í kjölfarið mundi ég gjarnan vilja fá svör við því hvort hún sé þá ósammála þeim landshlutasamtökum sem sameinuðust um að leggja það til að sá hagnaður yrði einmitt nýttur í innanlandsflugið, og það kom yfirlýsing hér. Ég held að það sé réttmætt að spyrja þingmanninn þessarar spurningar.

Síðan nefnir hún það að ekki séu nein fjárútlát heldur eingöngu heimild. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 50 milljónir af þeim 500 sem eiga að fara í flugvelli verði einmitt nýttar til þess að byggja upp flughlaðið. (Forseti hringir.) Ég held að það sé afar, afar gott. En ég hef ekki lesið tölvupósta í dag, ég hef setið hér og fylgst með umræðum og hef hugsað mér að gera það eitthvað áfram.