144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er gott að gera flugvelli landsins sem best úr garði. Hann talar mikið um að opna gáttir inn í landið. Ég skil hann á þann veg að millilandaflugvélar lendi þá oftar á öðrum flugvöllum en Keflavíkurflugvelli. Ég skil hann þannig, hann leiðréttir mig þá ef það er vitlaust.

Hvernig heldur hann að það gerist? Heldur hann að það gerist með yfirlýsingu frá Alþingi um að við viljum að svo verði? Það er sjálfsagt að búa til hlað, en það gerist ekki með því. Það gerist með því að flugfélög vilji fljúga þangað og farþegar vilji koma þangað. Og ég spyr hv. þingmann: Er (Forseti hringir.) mikil biðröð eftir því að auka millilandaflug á Egilsstöðum og Akureyri?