144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður eigi eftir að lesa samþykkt háskólaráðs Háskólans á Akureyri í dag og fær þar kannski einhverjar aðrar upplýsingar en hafa leitt hann og fleiri til þess að tala um stórsókn í þágu Háskólans á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri hefur markað sér sérstöðu í norðurslóðamálum og hann er hluti af þeirri stefnu stjórnvalda að á Akureyri skuli vera öflug miðstöð rannsókna, fræða og stjórnsýslu samanber staðsetningu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og margvísleg verkefni sem Háskólinn á Akureyri fóstrar, þar á meðal tvær stofnanir á vegum heimskautaráðsins, PAME og CAFF. Það þarf því ekkert að brýna Háskólann á Akureyri eða norðanmenn til dáða í þeim efnum. Þeir þurfa ekki handafl frá Alþingi, frá meiri hluta fjárlaganefndar um það hvaða námsáfanga þeir eigi að bjóða upp á og hverja ekki, enda gengur það ekki upp. Það er brot á lögunum um sjálfstæði háskóla, freklegt inngrip í það, sem akademían sjálf á að ákveða á grundvelli tiltekinna viðmiða og leikreglna sem eru samþykktar af menntamálaráðuneytinu. Þannig er það. (Forseti hringir.) Þegar hv. þingmaður ruglar þessu saman við eyrnamerkingu fjárveitinga í (Forseti hringir.) óskylda hluti sem ekkert koma háskólalagaumhverfinu við, þá er hann á miklum villigötum.