144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Svolítið finnst mér það dapurt þegar ég horfi yfir þennan sal hversu fátt er framsóknarmanna hér, en þó gengur í salinn hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir sem er formaður þingflokks Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Hvorki meira né minna.) Það vill svo til að í sögu þess flokks er þessi dagur ákaflega merkur. Á þessum degi, 16. desember, fyrir 98 árum var Framsóknarflokkurinn stofnaður og ég vil í tilefni af því færa flokknum og hv. þingflokksformanni Sigrúnu Magnúsdóttur sérstakar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Það voru mörg fyrirheit sem voru bundin fyrstu göngu þessa flokks og kannski var það hvergi betur í orð bundið en í hraðstígum kviðlingi sem Aðalheiður heitin frá Ytra-Ósi í Steingrímsfirði orti einhverju sinni þegar Framsókn gekk til ríkisstjórnar, en hann var svona:

Það mun batna þjóðarhagur

þegar Framsókn tekur við.

Þá verður margur mánudagur

til mæðu fyrir íhaldið.

Nú ætla ég ekki að spilla gleði afmælisbarnsins með því að draga það í efa að þjóðarhagur hafi stundum kunnað að batna þegar Framsóknarflokkurinn hefur sest að völdum. Ég vil þó halda því fram að það hafi einkum tilheyrt fortíðinni fremur en núna í dag.

Ég dreg það líka stórkostlega í efa, herra forseti, að það hafi verið mjög til mæðu fyrir íhaldið þegar Framsóknarflokkurinn steig í ríkisstjórn að þessu sinni. Satt að segja finnst mér að Framsókn hafi verið Sjálfstæðisflokknum allt of leiðitöm. Það breytir því ekki að ýmislegt í þessu fjárlagafrumvarpi sem við höfum verið að ræða í dag og síðustu daga er ágætt og ég vil a.m.k. fyrir mína hönd þakka hv. fjárlaganefnd fyrir tvenns konar breytingartillögur sem gerðar eru við 3. umr. Það er í fyrsta lagi sú breytingartillaga sem gerð er að því er varðar Bankasýsluna.

Við áttum nokkra orðahríð í gær, ég og hæstv. fjármálaráðherra, um framtíð Bankasýslunnar. Ég taldi þá að það væri mjög andsnúið eðlilegum samskiptum framkvæmdarvaldsins og löggjafans ef hér ætti að liggja laust þegar þing hyrfi til jólahlés með hvaða hætti ætti að skipa þeirri stofnun sess. Bankasýslan er mikilvæg stofnun. Hún er að sönnu lítil, en hún var sett á laggir á sínum tíma til þess að skapa eðlilega og hæfilega fjarlægð frá framkvæmdarvaldinu annars vegar og hins vegar meðferð þeirra eignarhluta sem ríkið á í ýmsum fjármálastofnunum. Það blasti hins vegar við að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að nokkurt fé verði veitt til Bankasýslunnar. Eigi að síður lá ekki fyrir neitt samkomulag, hvorki millum stjórnarflokkanna né á þinginu, um það hvernig ætti að skipa stofnuninni inn í framtíðina.

Ég hélt því fram í gær að það væri ekki hægt að skilja þannig við hlutina og óskaði eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kæmi til fundar við þingið og skýrði stöðuna. Það gerði hann svikalaust, lýsti því yfir í umræðunni að hann mundi hlutast til um það að við 3. umr. kæmi fram breytingartillaga. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa staðið við það. Sú breytingartillaga liggur fyrir af hálfu hv. fjárlaganefndar. Það er gert ráð fyrir því að stofnunin haldi áfram störfum inn í næsta ár og veittar til þess 33,6 millj. kr. Það samkvæmt greinargerð með þessari tillögu meiri hluta fjárlaganefndar á að duga henni sem örindi í sex mánuði.

Ég get fallist á þessar málalyktir og tel reyndar að frammistaða hæstv. fjármálaráðherra mætti verða kollega hans, hæstv. forsætisráðherra, til eftirbreytni. Það er satt að segja ákaflega jákvætt þegar ráðherrar og handhafar framkvæmdarvaldsins bregðast við með þessum hætti. Því miður gerist það of sjaldan að hæstv. forsætisráðherra heiðrar þessa samkomu með nærveru sinni, hvað þá að hann rétti út höndina til sátta með svipuðum hætti og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í gær. Því vil ég nefna að þetta er fágætt. Ég tel að það sé til eftirbreytni og það sé þakkarvert.

Í öðru lagi. Í ræðu minni við 2. umr. reifaði ég það sjónarmið að eðlilega í hraða leiksins gerðist það að mál dyttu fyrir borð, gleymdust jafnvel, fyrir misskilning eða mistök. Ég tiltók sérstaklega eitt mál. Það var framlag sem hafði verið á fjárlögum fyrir núlíðandi ár og tvískipt, annars vegar voru það ígildi tæpra 30 milljóna sem Útlendingastofnun fékk til þess að vinna sig í gegnum bunka af umsóknum hælisleitenda sem voru erfiðar. Sú vinna hafði gengið mjög vel. Ég taldi mig geta sýnt fram á að það gæti leitt til sparnaðar upp á kannski 100, hugsanlega 300 millj. kr., ef menn mundu áfram halda þessari tímabundnu fjárveitingu sem var til þess að standa straum af störfum tveggja starfsmanna til þess að halda áfram þessari vinnu, og annars vegar í svipuð tímabundin störf innan innanríkisráðuneytisins þar sem verið var að reyna að gíra niður fjölda umsókna hælisleitenda til þess að við gætum staðið við regluna sem við góðu heilli settum með mikilli samstöðu á þinginu síðastliðið vor, um að málsmeðferð umsókna um hæli hér á landi ætti ekki að taka nema 90 daga. Þetta skipti máli, ekki einungis fyrir heill og líðan þeirra sem hlut eiga að máli, líka fyrir velferð skattborgaranna. Það kostar mikið fé að standa undir þeirri skyldu sem við höfum til þess að halda uppi hælisleitendum sem hingað hafa komið og mega hvorki fara né vera og liggur ekki fyrir hver framtíð þeirra verður.

Ég vil hrósa hv. formanni fjárlaganefndar, það gerist ákaflega sjaldan að ég geri, Vigdísi Hauksdóttur fyrir það að hún hlustaði á þetta ásamt félögum sínum í fjárlaganefndinni og hefur brugðist við með þeim hætti að hér liggur fyrir sömuleiðis breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar sem gerir ráð fyrir því að samtals séu veittar þær 50 millj. kr. sem þarf til að sinna þessu áfram. Ég tel að það sé mjög jákvætt. Ég tel líka að það sé til eftirbreytni af hálfu hv. fjárlaganefndar að skoða málefnalega ábendingar sem henni berast frá stjórnarandstöðunni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé mikilvægur en ákaflega erfiður málaflokkur.

Ég hef setið í fjórum ríkisstjórnum og alltaf hefur það verið reynsla mín að þeir ráðherrar sem hafa haft veg og vanda af þessum málaflokki hafa ekki notið mikils stuðnings í ríkisstjórninni þegar hefur komið að því að afla fjár til málaflokks, sem því miður vegna stöðunnar í heiminum er vaxandi. Það má gera ráð fyrir því, og það gera allar ríkisstjórnir í löndunum í kringum okkur, að því miður muni straumur hælisleitenda milli landa, og ekki síður hingað til Íslands, aukast á næstu árum. Það skiptir miklu máli að við stöndum undir þeim skyldum sem við höfum axlað með alþjóðlegum skuldbindingum. Fyrir þetta vil ég segja að ég er ánægður með þessi störf hjá hv. fjárlaganefnd.

Eitt af erindum mínum hingað í ræðustólinn er líka að mæla fyrir tillögu sem gerir ráð fyrir því að til viðbótar við það fé sem nú er veitt til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði veittar 500 millj. kr. Ástæðan fyrir því að við leggjum þetta til, ég, og hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir, með fullri samstöðu annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar, er sú staðreynd að nú er í gildi ákveðin áætlun um það hvernig við Íslendingar hyggjumst haga framlögum til þróunarsamvinnu. Sú áætlun var söguleg. Ég rifja það upp að hún var tekin héðan úr þessum stóli af forseta Íslands til marks um það hvernig Alþingi Íslendinga getur stundum komið sér saman um erfið og flókin viðfangsefni. Á þeim tíma lagði ég fram sem utanríkisráðherra þingsályktunartillögu um þessi framlög okkar allt til ársins 2022. Þingið var henni algjörlega sammála. Ekki einungis það heldur var þessi tillaga í meðförum þingsins framhlaðin sem gerði það að verkum að það var meira greitt á fyrri helmingi tímabilsins en á hinum síðari.

Ég minnist sérstaklega glæsilegrar ræðu sem núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, flutti við umræðuna um þá tillögu. Hann sagði að það væri jákvætt að tillagan væri komin fram, Sjálfstæðisflokkurinn styddi hana og hann teldi að hún væri raunhæf. Reynslan af núverandi ríkisstjórn bendir hins vegar til þess og sýnir það vitaskuld svart á hvítu að hún er andstæð þessu. Nú eru 18 mánuðir liðnir frá því að ríkisstjórnin tók við völdum og á þeim tíma hefur hún tvisvar brotið þá áætlun sem við samþykktum hér og var í reynd loforð, formlegar skuldbindingar sem við höfðum axlað gagnvart örbjarga fólki í fátækustu þjóðum heimsins. Mér finnst það hvorki stórmannlegt né jákvætt að nokkru leyti. Ég gæti farið mörgum hörðum orðum um það. Ég ætla ekki að gera það.

Það sem vantar upp á miðað við áætlunina sem þingið samþykkti eru ekki 500 milljónir, það eru 2.300 milljónir. Það eru stórar fjárhæðir. Það er samt sem áður þannig að það eru lönd í kringum okkur, reyndar öll löndin sem við berum okkur saman við, frændþjóðir okkar, sem greiða miklu hærra hlutfall af landsframleiðslu en Íslendingar. Það var athyglisvert, af því að hér sitja góðir íhaldsmenn, sjálfstæðismenn í þessum þingsal, hv. þm. Elín Hirst og Birgir Ármannsson, að hugsa til þess að flokkssystkin þeirra í Bretlandi sem líka gengu í gegnum þunga kreppu, sem var því ríki þungbær og er ekki enn séð fyrir endann á, brugðust við því í sama bili og menn vitaskuld gripu til þess að reyna að skera niður það sem hægt var. Þá var gefið í með þróunarmálum. Með öðrum orðum, íhaldsstjórnin í Bretlandi stendur sig snöggtum betur en núverandi ríkisstjórn og líka betur en fyrrverandi ríkisstjórn á fyrri parti valdaskeiðs síns.

Ég tek það fullkomlega gilt ef Alþingi Íslendinga tekur aðra ákvörðun um áætlun. Ríkisstjórnin hefur setið núna bráðum 20 mánuði. Við höfum verið hér bráðum tvo fulla þingvetur án þess að hæstv. ríkisstjórn hafi haft fyrir því að leggja fram nýja áætlun. Þegar sú áætlun kemur fram sem tillaga af hálfu ríkisstjórnarinnar mun ég auðvitað berjast gegn henni með þeim meðulum sem mér eru heimil innan þingsins, en þegar hún liggur fyrir þá líður manni a.m.k. ekki eins og verið sé að svíkja fyrirheit þingsins gagnvart fólki sem á í miklum erfiðleikum. Við erum þrátt fyrir allt, og það er síðustu ríkisstjórn að þakka og þeim sem áður komu og núverandi líka, meðal auðugustu þjóða heims. Ég tel að við höfum siðferðilega skyldu til þess að láta af höndum rakna, ekki síst vegna þess að það liggur fyrir að þær leiðir sem við notum til þess að miðla fjármunum til þessara þjóða eru til eftirbreytni á þann hátt að stórar þjóðir eru að taka þær upp. Meira og minna fer okkar stuðningur í það að hjálpa mæðrum og börnum. Við vinnum í grasrótinni. Við búum til heilsugæslu. Við styðjum menntun.

Það liggur fyrir að hlutfallslega er afraksturinn af þróunarsamvinnu okkar miklu betri en margra annarra þjóða. Það er þess vegna sem leitað hefur verið til þeirrar aðferðar sem Þróunarsamvinnustofnun beitir af stórum þjóðum sem velta því fyrir sér að taka það upp. Það hefur reyndar líka verið leitað til ÞSSÍ einmitt vegna þess hversu vel hún er talin verja fjármunum sínum í það að taka að sér ákveðin verkefni.

Í þessu ljósi er tillaga okkar lögð fram. Það er ekki gert ráð fyrir 2.300 milljónum sem þyrfti til þess að standa við þetta, en það er lögð til töluverð viðbót, hún nemur 500 milljónum sem er þó altént áfangi upp í það sem Alþingi samþykkti á sínum tíma.

Ég tel að við þingmenn höfum siðferðilega skyldu til þess að minnsta kosti að sýna það að við viljum reyna að standa við þessa áætlun þangað til Alþingi hefur samþykkt nýja. Það hefur ekki gerst. Það hefur verið boðað hér tvo vetur í röð en enn er hún ekki fram komin, hugsanlega vegna þess að við vitum það að hæstv. utanríkisráðherra er önnum kafinn með mjög mikilvæg ferðalög erlendis og ekkert um það að segja og í staðinn höfum við fengið ágætismenn hingað, ekki þar fyrir að ég vilji skipta á þeim endilega. En mér finnst þetta svolítið súrt í broti vegna þess að flokkarnir báðir sem núna eru í ríkisstjórn samþykktu þetta. Það var enginn þingmaður sem var á móti nema hugsanlega einn, það var sá þingmaður sem lýsti því yfir að hún vildi skerða þróunaraðstoðina, hún vildi leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Það er vefur örlaganna að viðkomandi, hv. þm. (Forseti hringir.) Vigdís Hauksdóttir, er formaður fjárlaganefndar. Það má óska henni til hamingju fyrir að hafa náð því fram að (Forseti hringir.) lækka framlög til fátækasta fólks í heiminum á þennan hátt. (Forseti hringir.) En ekki ætla ég að óska (Forseti hringir.) félögum hennar í ríkisstjórninni, herra forseti, til hamingju með að hafa hjálpað henni (Forseti hringir.) við það.