144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér svífur nú um salina, ég vil ekki segja sem engill, formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem einmitt lýsti því yfir að þessi áætlun væri raunhæf. Það er svo skrýtið að það er eins og hann hafi gengið í gegnum einhvers konar hamskipti þegar hann settist í stól hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að þá skipti hann greinilega algjörlega um skoðun. Reyndar var heilbrigðisráðherra sem hér er líka nákvæmlega sömu skoðunar, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson.

Eigi að síður lít ég svo á að hv. þingmaður sé í reynd að lýsa yfir stuðningi við anda þessarar tillögu. Ég get vel skilið að mönnum, sem eru haldnir mikilli reglufestu eins og hv. þingmaður hefur sýnt í pólitískum störfum sínum, vaxi það í augum að ætla að kippa til hálfum milljarði um kvöldmatarleytið á síðasta degi þings, eins og hann sagði. Það vill svo til að ég hef bent á það með hvaða hætti er hægt að gera ráð fyrir þessu án þess að það höggvi mikil skörð í hina fjárhagslegu múra sem ríkisstjórnin hefur girt um sig. Ég hef bent á það til dæmis að þegar menn eru að áætla tekjur ríkissjóðs eru þær ákaflega vanáætlaðar, t.d. þegar kemur að arði á bönkum. Í fjárlagafrumvarpinu er verið að tala um að þeir verði á næsta ári 13 milljarðar sem er minna en á þessu ári, minna en í fyrra og þó vitum við það, það liggur bókstaflega fyrir, að þeir verða meiri á næsta ári. Það er til dæmis hægt að gera ráð fyrir því að tekjur ríkisins af þeim leiðum mundu hækka um hálfan milljarð og við mundum verja því á þennan hátt.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni samt fyrir málefnaleg samskipti í þessum efnum. Það eina sem veldur mér sorg, fyrir utan það að mér fannst hann ekki alveg nógu jákvæður gagnvart tillögunni, er auðvitað sú staðreynd að hv. þingmaður hefur haldið tvær ræður hér og látið hjá líða að óska Framsóknarflokknum til hamingju með afmælið, sem ég hafði þó mannasiði (Forseti hringir.) til þess að gera á þessum merka degi í sögu þess flokks.