144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið hér dögum og nóttum saman síðustu vikur og hlustað á umræður, og eftir atvikum tekið þátt í þeim, um fjárlagafrumvarpið. Það er undrunarefni að nánast hver ræða þingmanna stjórnarliðsins ber keim af því að þeir líta svo á og trúa því að hér drjúpi nánast smjör af hverju strái, a.m.k. eru þeir ósparir á að berja sér á brjóst og hrósa sér af því að hafa, eins og einn þingmaður sagði, á örskömmum tíma snúið fjárhag ríkisins við. Það er auðvitað tóm vitleysa. Hitt er algjörlega ljóst að núverandi ríkisstjórn tók við býsna góðu búi frá fráfarandi ríkisstjórn sem ég tel að hafi reist efnahaginn við eftir bankahrunið og flest á Íslandi er þrátt fyrir allt í góðu lagi í samanburði við mjög margar þjóðir. Íslendingar eru efnaðir. Hlutirnir ganga vel. Þær spár sem við settum fram í fyrri ríkisstjórn um þróun hagvaxtar hafa fram undir það síðasta gengið eftir og þess vegna er það hárrétt hjá hv. þingmanni að spyrja: Ef ekki er svigrúm til þess að gera það núna, hvenær þá? Aldrei. Ef það er ekki hægt núna hvenær ætla menn þá að gera það? Er það virkilega þannig að við Íslendingar eigum að vera stikkfríir, berum enga ábyrgð á meðbræðrum okkar og systrum annars staðar sem eru að berjast til bjargálna? Að sjálfsögðu ekki. Þannig er það ekki í siðuðu félagi manna. Allar aðrar þjóðir hafa gengist undir þetta jarðarmen og sumar mjög fúslega. Þjóðir sem eru ekki eins vel stæðar og Íslendingar reiða miklu meira af hendi en við.