144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki vantar bjartsýnina þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins tala. Þeir eru ákaflega jákvæðir á framtíð Íslands, það er ég reyndar líka. Þess þá heldur ættum við að vera rausnarleg. Þetta er ekki einu sinni það að vera rausnarlegur í samanburði við ýmsar þjóðir í kringum okkur. Bretar, þar sem þjóðartekjur eru töluvert lægri en á Íslandi, þeir leggja meira en þrefalt hlutfallslega til þróunarsamvinnu en við. Þeir eru búnir að ná markinu 0,7%, sem við stefnum að að ná einhvern tímann á næsta áratug. Írar, sem hafa staðið í ströngu eins og við, gerðu náttúrlega eins og við og klipu af þróunaraðstoð en eru byrjaðir að vinna það upp aftur. Þeir eru í 0,49%, meira en tvöfalt meira en við. Þar er vel að verki staðið hjá frændum okkar Keltunum í Írlandi.

Ef við horfum á fortíð Íslands er það ekki svo að við Íslendingar höfum ekki þegið fagnandi það sem að okkur var rétt. Fram á fimmta eða jafnvel sjötta áratuginn þáðum við þróunaraðstoð. Marshall-aðstoðin var ekkert annað en þróunaraðstoð og var meira að segja skilgreind þannig að þjóðir þyrftu að vera undir ákveðnum tekjumörkum á einstaklinga til þess að geta talist tækar undir það. Sú aðstoð byggði að töluverðu leyti upp innviði Íslands á síðustu öld. Hún leiddi til þess að menn reistu hér verksmiðjur, brýr og vegi. Það má því segja, herra forseti, að með því að láta af höndum rakna í ríkari mæli en við gerum séum við að borga til baka (Forseti hringir.) það sem gerði okkur gott.