144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær spurningar sem settar eru fram og snúa aðallega að framlagi til vegagerðar. Ég þarf ekki miklu að bæta við það og hv. þingmaður tók réttilega eftir því hversu lítið verður til að bjóða út á næsta ári.

Hv. þingmaður spyr líka út í vetrarþjónustuna sem hefur farið vaxandi, en hún breytist auðvitað með breyttu tíðarfari. Vetrarþjónustan kostaði 1,8 milljarða árið 2009 en kostnaðurinn árið 2013 var 2,5 milljarðar. Þetta er það sem er í mínus hjá Vegagerðinni. Eitthvað örlítið skref er stigið núna með því að setja 250 milljónir í framlag til vetrarþjónustu en það er líka gert með ýmsum reiknikúnstum og er þá minna til framkvæmda, eins og ég gat um áðan. Þetta er vaxandi þáttur. Við höfum til dæmis verið að taka ákvarðanir undanfarin ár um að hafa sjö daga mokstur alla daga vikunnar á mjög mörgum landsvæðum og gott ef það er ekki nánast allur hringvegurinn og allir Vestfirðirnir, meginleiðir sem þar eru settar inn. Að sjálfsgöðu hefur þetta kostnaðaraukningu í för með sér og einnig breytt tíðarfar. Mikil hálka á vegum gerir það að verkum að við krefjumst þess og viljum að meira sé gert í þessum málum.

Hv. þingmaður gat um að við þingmenn Norðausturkjördæmis hefðum átt fund í hádeginu með fulltrúum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem lýstu þar miklum áhyggjum sínum af framkvæmd menningarsamnings og sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin eða fulltrúar þeirra eru að vinna í núna í einhverju, ég leyfi mér að segja bixi. Mér finnst eiginlega alveg ómögulegt að ná utan um hvað verið er að gera. Þess vegna var ánægjulegt að þeir fulltrúar skyldu koma til okkar, þótt ég hafi fengið upplýsingar frá öðrum aðilum hvað varðar t.d. Eyþing. Það er alls ekkert í lagi hvernig (Forseti hringir.) verið er að framkvæma þetta og mun koma mjög illa út. Það verður að bíða betri (Forseti hringir.) tíma, virðulegi forseti, til áramóta, að eiga orðastað við ráðherra (Forseti hringir.) og aðra um framkvæmd á þessum samningi.