144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er annað sem mig langar til að koma inn á. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans áðan. Ég hef líka miklar áhyggjur af sóknaráætlunarfyrirkomulaginu. Sveitarstjórnir hafa sagt okkur svo oft hversu vel hefur tekist til og að verið sé eyðileggja það núna með svona aðgerðum, bæði í þessu fjárlagafrumvarpi og síðasta.

Mig langar aðeins að velta upp skólamálum og stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim. Er hv. þingmaður sammála mér, af því að við höfum eignast menntaskóla í heimabæ okkar, að hún veiki byggðirnar, þessi aðför að skólunum sem virðist vera varðandi blöndun og það að 25 ára og eldri megi stunda nám í skólanum. Til dæmis nýr skóli eins og Menntaskólinn á Tröllaskaga sem hefur ekki einu sinni fengið tækifæri til að klára sig af, ef maður getur sagt sem svo, hann er rétt farinn að útskrifa heila árganga, gerði það í fyrsta skipti í fyrravor þótt hann hafi vissulega útskrifað frá fyrsta ári. Er hv. þingmaður sammála því að verið sé að veikja rekstrarform landsbyggðarskólanna með því að taka þennan faktor (Forseti hringir.) út?