144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alveg hárrétt, eins og mælt út úr mínum munni í raun og veru með innviðastyrkinguna. Það er það sem ríkisvaldið á að beita sér fyrir til styrkingar veikum byggðum á landsbyggðinni. Það er byggðastefna sem bragð er að. Við getum tekið sem dæmi úr mínum heimabæ, Fjallabyggð, með Héðinsfjarðargöng. Ef einhver efast um að innviðastyrking á vegum ríkisins sem byggði þau miklu og glæsilegu göng, sem vissulega kostuðu sitt, að það hafi stuðlað að betri byggð þar á eftir; jú, sannarlega, sannarlega. Það er þannig núna, virðulegi forseti, að almennt er það svona rætt í þeim bæ hvað gerðist fyrir og eftir Héðinsfjarðargöng í sambandi við það. Það sjáum við svo vel í þeirri uppbyggingu til ferðaþjónustu sem á sér stað. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, þetta er það sem við hér á Alþingi og ríkisvaldið á að gera, þ.e. að veita fjármuni til að styrkja innviði (Forseti hringir.) og þar eru samgöngumálin mjög framarlega í flokki.