144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu margt sem maður hefði haft áhuga á að ræða við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins svo sem eins og niðurstöðuna sjálfa sem væri fullt tilefni til að velta fyrir sér, hvort það sé ásættanlegt að á árinu 2015 sé ekki stefnt að nema 3,5 milljarða kr. afgangi af ríkissjóði sem er langt innan við 0,2% af vergri landsframleiðslu og er innan skekkjumarka þegar uppgjör á svo stórum tölum er á ferð.

Nú ber að sjálfsögðu að taka það fram að margt af því sem verið er að veita einhverja úrlausn með auknum fjárveitingum í fjárlagafrumvarpinu er hið þarfasta mál. En afgangurinn gæti engu að síður verið mun myndarlegri ef ríkissjóður hefði ekki orðið af jafn miklum tekjum og raun ber vitni. Satt best að segja verður dapurlegt að sjá ef útkoman á árinu 2015 verður mun lakari en stefnir í að hún geti orðið á árinu 2014, að vísu er það vegna einskiptisbúhnykks sem ríkissjóður hefur fengið í gegnum óvenjuháar arðgreiðslur og bókfærslu á lækkun eigin fjár Seðlabankans, en það er engu að síður það sem gæti orðið niðurstaðan.

Ég hefði sömuleiðis haft áhuga á því að ræða það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um samninga um framleiðnitengingu á Landspítalanum eða sjúkrahúsunum þar sem meiningin er að sjúkratryggingar fari nú að semja um afkastahvetjandi kerfi á grundvelli einhverra verðeininga um þjónustu inni á opinberum sjúkrahúsum. Allt of lítil umræða hefur farið fram um það hvort þetta sé yfir höfuð eitthvað sem við eigum að fara að taka upp nú á sama tíma og menn eru sums staðar að hverfa frá þessu fyrirkomulagi erlendis. Þetta er jú búið að vera lengi hugmyndin hér af ýmsum öflum og bak við lúrir sú áhætta að með þessu sé brautin rudd fyrir einkavæðingu. Það er önnur saga.

Ég neyðist til að nota mest af tíma mínum í það mál sem hefur talsvert borið á góma hér í dag og varðar útkomu Háskólans á Akureyri úr fjárlagafrumvarpinu, fyrst og fremst vegna þeirrar lögskýringar sem rataði illu heilli inn í texta af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. þegar gerð var tillaga um að háskólinn fengi áfram, eins og hann fær á þessu ári samkvæmt fjáraukalögum og fékk í fjárlögum ársins 2013, sérstaka 30 millj. kr. fjárveitingu til að mæta tilgreindum verkefnum sem sótt var um á sínum tíma. Forsagan er sú að háskólinn tók mjög myndarlega á í rekstri sínum, hélt sig innan fjárlaga á öllum erfiðleikaárunum og greiddi á sama tíma niður umtalsverðan skuldahala en þurfti auðvitað að ganga mjög nærri sér til þess. Hann greip meðal annars til þess ráðs í samráði við starfsmenn sína að fella niður í tvö ár rannsóknarmissiri fastráðinna kennara. Auðvitað gat ekki við svo búið staðið til lengdar þannig að háskólanum var mætt í þessu tilliti með fjárveitingu í fjárlögum ársins 2013 upp á 30 millj. kr. Hún var sérstaklega tengd því verkefni að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara auk þess að mæta þörfum í ýmissi stjórnsýslu og stoðþjónustu því tengt og öðru. Þannig kom fjárveitingin inn í byrjun og þannig var hún rökstudd aftur í fjáraukalagafrumvarpinu og tillögum meiri hlutans nú fyrir örfáum vikum síðan.

Svo gerast þau tíðindi við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár að það er komin allt önnur og alveg spánný lögskýring inn sem ætla verður, ef hún fær staðist, að bindi hendur háskólans. En þar segir nú, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag til Háskólans á Akureyri.“ — Sömu 30 milljónirnar þriðja árið í röð. (VigH: Þetta var svona …)„Annars vegar er 20 millj. kr. framlag til eflingar kennslu í heimskautarétti sem fram til þessa hefur aðeins verið kenndur annað hvert ár vegna fjárskorts. […] [Kliður í hliðarsal.]Hins vegar er 10 millj. kr. framlag til að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara.“

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef ekki væru fundir í hliðarsal og ef formaður fjárlaganefndar gæti sýnt þessari umræðu þann sóma að vera í salnum. Ég hafði reyndar óskað eftir viðveru hæstv. menntamálaráðherra sem væri gott að kæmi hér líka. [Kliður í hliðarsal.](Forseti hringir.)

Hvað er hér að gerast? Hér er meiri hluti fjárlaganefndar kominn inn á það spor að eyrnamerkja til kennslu í einum tilteknum námsáfanga 20 millj. kr. Þarf nú ekki hvatningar við til Háskólans á Akureyri sem hefur haft það sem sérstöðu og flagg að sinna málefnum norðurslóða og ekkert nýtt við það af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Háskólinn á Akureyri gerði það strax í árdaga undir forustu Haralds Bessasonar, fyrsta rektorsins, og síðan Þorsteins Gunnarssonar. Það átti sinn þátt í því að ríkisstjórn og Alþingi ákváðu að staðsetja Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, norðurslóðastofnun Íslands, á Akureyri við háskólann, að þar eru vistuð rannsóknarverkefni á vegum Heimskautaráðsins, PAME og CAFF, og þaðan hefur verið sinnt fjölmörgum fleiri verkefnum svo sem eins og Háskóla norðurslóða og rannsóknarneti norðurslóða. Það kemur þar af leiðandi úr hörðustu átt að menn skuli nú telja sig þurfa að stýra með handafli því hvernig Háskólinn á Akureyri ráðstafar fjármunum sínum m.a. í þessu skyni. Það ragar ekkert upp á hann í þeim efnum.

Svo kem ég að því sem er öllu alvarlegra að þessi lögskýring gengur ekki upp. Alþingi getur ekki gert þetta svona nema breyta lögum um háskóla. Það er nefnilega þannig og vænt væri nú og gaman ef hæstv. formaður fjárlaganefndar vildi leggja eyrun við en kannski er það borin von að eitthvað komist þar inn. (VigH: Ég hlusta …) Eins ef hæstv. menntamálaráðherra væri hérna og léti okkur fá sína faglegu skoðun á því hvort þetta gangi upp svona. (Gripið fram í: Dónaskapur er þetta.)(Gripið fram í.)

Ef við lítum á —(Gripið fram í.) já, það mega fleiri tala en þeir sem eru gjammandi í hliðarsölum. (Gripið fram í: Dónaskapur.) (Gripið fram í.) Ef við lítum á lög um háskóla, eins og þetta er samkvæmt bókinni, herra forseti, menn greinilega þola illa að heyra það, (VigH: Nei, við skulum bara draga þetta fram …) þá stendur þar í 2. gr.:

„Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar …“ o.s.frv. Það er lögð áhersla á sjálfstæði háskóla. Það er ekki út í loftið.

Í 3. málslið 2. gr. stendur:

„Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið.“

Háskólar ákveða það. Í 3. gr. er fjallað sérstaklega um að opinberir háskólar, líka ríkisreknir háskólar, séu sjálfstæðar ríkisstofnanir. Það er aftur lögð áhersla á sjálfstæðið. Það sem mest er um vert, virðulegi forseti, er að í 7. gr. stendur:

„Háskólar ákveða fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats.“

Í næsta málslið segir:

„Háskólar ákveða hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs og undirflokka þeirra.“

Sjálfstæði háskólanna er að þessu leyti algerlega varið í lögum. Það heitir akademískt frelsi. Þannig er það. Þess vegna gengur það ekki upp að meiri hluti fjárlaganefndar búi hér til lögskýringu sem gengur þvert á ekki bara anda laganna heldur líka inntak laganna um háskóla, tekur fram fyrir hendur háskólanna um það sem þeir eiga að sinna. Þetta er ósambærilegt við fjárveitingar til ýmissa annarra óskyldra verkefna (Gripið fram í.) þar sem engum slíkum lögum um sjálfstæði háskólanna og hlutverk þeirra er fyrir að fara. En það er um það búið í lögum um háskóla vegna þess að menn vilja standa vörð um sjálfstæði háskóla og þeirra akademíska frelsi.

Hafandi bent á þetta og þá staðreynd að Háskólann á Akureyri vantar ekkert vilja til þess að gera eins vel og hann getur í málefnum norðurslóða er þetta auðvitað með öllu ástæðulaust.

Út af fyrir sig gerði ég engar athugasemdir við það þó Alþingi vildi leggja áherslu á það með því að nefna t.d. líka að háskólinn skyldi eins og hann gæti líka efla starfsemi sína á sviði norðurslóða, rannsókna, náms og það hefur hann verið að reyna að gera. Satt best að segja hefur hann oft fært fé úr öðrum þáttum starfsemi sinnar til þess að reyna að standa að ráðstefnuhaldi, samstarfi við aðra háskóla á norðurslóðum o.s.frv. Það veit ég vel að háskólinn hefur gert. Það er því frekar þannig að ýmsar aðrar námsgreinar innan háskólans [Kliður í þingsal.] hafi mátt búa við það að háskólinn hefur lagt mjög þunga áherslu á norðurslóðamálin. En þessi frágangur málsins gengur ekki. Hann er í ósamræmi við lögin um háskóla og hann er ósanngjarn í garð Háskólans á Akureyri. (Gripið fram í.) Enda hefur öll yfirstjórn háskólans og háskólaráðið sameinað í dag beðið um að þessu verði breytt, beðið um að þessi lögskýring verði leyst af hólmi með annarri sem færi honum meira svigrúm til þess að vinna úr þessum fjármunum og ekki veitir honum af þeim. Satt best að segja er Háskólinn á Akureyri ekki ánægður, því miður, með sína útkomu úr fjárlagatillögunum eins og þær standa um þessar mundir.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt áður en við ljúkum afgreiðslu þessa máls að þetta verði lagfært. Það er mjög einfalt að gera. Það mætti gera með því að meiri hluti fjárlaganefndar tæki bara upp texta sinn úr fjáraukalögunum, sem var nógu góður fyrir nokkrum vikum síðan. Það mætti líka bæta við þann texta að þar til viðbótar skyldi háskólinn leggja eins og hann mögulega gæti jafnframt áherslu á að efla starfsemi sína á sviði náms og rannsókna í norðurslóðamálum. Geta þá ekki allir sæmilega sáttir við unað? Ég vona það.

Háskólaráð kom saman í dag og hefur sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu til okkar þingmanna þar sem þeir að vísu telja sig draga frekar stutta stráið varðandi skiptingu á pottinum til að efla háskólastarfið, en það tengist umræðunni um að verið sé að bæta fyrir nemendur sem ekki hafi verið greitt fyrir og allt það, við þekkjum þá umræðu. Látum það vera, en einbeitum okkur að þeim 30 milljónum þar sem háskólaráðið biður um að þessu verði breytt þannig að háskólinn hafi frelsi til þess að ráðstafa þessum fjárheimildum innan ramma laganna um opinbera háskóla og reglur Háskólans á Akureyri. Hvað kveða reglur Háskólans á Akureyri um og yfirlýst stefna hans? Jú, ekki síst að halda forustuhlutverki skólans á sviði norðurslóðamála og efla þá starfsemi.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, herra forseti, að ekki sé hægt að lagfæra þetta þannig að það standi ekki áfram lögskýring sem bersýnilega fer í bága við lög um háskóla og engum til ánægju held ég að það sé þannig og hún sé leyst af hólmi með nýrri lögskýringu sem sé í samræmi við vilja Háskólans á Akureyri og hann treysti sér til að búa við og allir geti verið sáttir.

Ég vil fá svör við því hvort það sé að takast eitthvert samkomulag um þetta sem að sjálfsögðu mun hjálpa til við að við getum lokið þessari umræðu. Okkur höfðu verið gefin fyrirheit um það, m.a. fengum við þær upplýsingar úr fjárlaganefnd og víðar í gærkvöldi og reyndar í morgun að það væri von á yfirlýsingu sem mundi leysa þetta mál. Þegar það gengur svo ekki eftir þá erum við auðvitað sárt svikin og getum ekki unað því að ekki sé staðið við það sem okkur voru gefin fyrirheit um að yrði grundvöllur samkomulags um þinglok. Ég held að menn ættu að hugsa sinn gang mjög vel áður en þeir hafna því að reyna að finna sameiginlega lausn á þessu máli þannig að allir geti farið sáttir til síns heima og m.a. heimsótt Háskólann á Akureyri í þinghléi og fengið þar sæmilegar móttökur.

Herra forseti. Þetta legg ég aðaláherslu á enda hef ég ekki tíma til að fara mikið út í önnur mál. Ég fagna því að málefni Bankasýslunnar sem ég hafði margoft tekið hér upp á undanförnum vikum fengu að lokum mjög farsæla úrlausn. Ég er ákaflega sáttur við fráganginn á því máli, að starfsgrundvöllur Bankasýslunnar sé tryggður fram á mitt ár og á meðan fær Alþingi væntanlega til umfjöllunar frumvarp um nýtt fyrirkomulag þessara mála þannig að við getum unnið það í góðum friði og í góðum tíma. Eftir því sem ég best veit hafa menn verið að hnýta lausa enda hvað varðar flest önnur mál sem uppi á borðum hafa verið í gær og í dag. Þetta lítilræði stendur út af sem er nú ekki stórt í sniðum, snýst ekki um útgjöld, snýst ekki um eina einustu krónu, snýst ekki um annað en að Háskólinn á Akureyri fái að njóta síns akademíska frelsis og síns svigrúms.

Fagna ég nú komu hæstv. menntamálaráðherra og legg auðvitað þá spurningu fyrir hann hvort hann telji að það samrýmist lögum um opinbera háskóla, einkum 7. gr. þeirra, 1. og 3. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr., að fjárveitingavaldið grípi með þessum hætti inn í innra starf háskólans og það sem stjórnendum háskóla er falið með lögum, og ekki bara falið heldur gjörsamlega varið að skuli vera í þeirra valdi, sem er að ákveða námsframboð og einstakar einingar í því og annað í þeim dúr. Það væri mjög ánægjulegt ef við gætum slegið botninn í þetta með því að hæstv. menntamálaráðherra og síðan helst hv. formaður fjárlaganefndar kæmu og leystu þetta, það væri afar einfalt mál, tekur þrjár setningar til að lesa upp nýja lögskýringu sem leysi hina fyrri af hólmi.