144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því að vera að skipta mér af störfum forseta en mér var mjög umhugað um röð ræðumanna vegna þess að ég sá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur óska eftir andsvari við hv. þingmann, en það er auðvitað eins og gengur og gerist, menn geta fallið frá andsvörum. (Gripið fram í.) Þess vegna biðst ég afsökunar á því að hafa verið að skipta mér af störfum forseta hvað það varðar, ég hélt að þetta væru einfaldlega mistök og taldi að menn ættu að koma hér í réttri röð upp til andsvara. Ég trúi ekki öðru en hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem óskað var eftir að kæmi í salinn og hefur verið hér undir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, komi í ræðustól og bregðist við því sem þar var sett fram, sem er efnislega mjög svipað því sem ég sagði í minni ræðu.

Virðulegi forseti. Ég vil í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þakka honum fyrir það sem hann ræddi um Háskólann á Akureyri og var eins og ég sagði mjög samhljóða því sem ég setti fram. Það er krafa okkar að þetta verði leiðrétt og má segja sem svo, virðulegi forseti, að mjög einfalt sé að lagfæra það. Alveg eins og okkur tókst í gærkvöldi að knýja fram fund í fjárlaganefnd um Bankasýsluna og í framhaldi breytingartillögu um Bankasýsluna þannig að hún hafi fjárveitingu á næsta ári og geti starfað frá og með 1. janúar, þá er mjög einfalt að leysa þetta smámál. Það gerir hv. þm. Vigdís Hauksdóttir með því að breyta þeim texta sem hún hefur beitt sér fyrir að settur er þarna inn.

Spurning mín til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er um vegamál vegna þess að ég þekki og geri mér grein fyrir hugsjónum hans í sambandi við vegagerð og vegamál og af því hann hafði ekki tíma til að ræða það hér. Ég vil spyrja hann út í það sem ég hef gert hér að umtalsefni og er í raun og veru Íslandsmet í að gera ekki neitt, hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeim mjög svo litlu fjárveitingum sem veittar eru til vegagerðar á næsta ári og hvernig það líti út í hans huga ef það verður þannig, eins og ég hef sett fram með rökum, að einungis 270 (Forseti hringir.) milljónir verða til nýrra útboða á næsta ári. Í hvað stefnir þá, virðulegi forseti?