144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að stikla á nokkrum þáttum í 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2015 og draga saman það sem mér finnst standa upp úr og vera kjarninn í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt verður hér á næstunni.

Þessi fjárlög bera þess vitni að vera aðför að mörgum grundvallarþáttum í samfélagi okkar sem vissulega er mikið áhyggjuefni. Ég tel að þau séu í fyrsta lagi aðför að launafólki. Þau eru aðför að velferðar- og heilbrigðismálum og þau eru aðför að menntun og framhaldsmenntun í landinu. Þau eru aðför að náttúru landsins og þau eru aðför að samgöngum í landinu. Þau eru aðför að menningunni, að byggðastefnu og samgönguáætlun. Þau eru aðför að Ríkisútvarpinu. Þetta eru þeir þættir frumvarpsins þar sem ég tel að verið sé að gjörbreyta um kúrs frá því sem verið hefur. Auðvitað var sleginn tónninn í síðustu fjárlögum. Menn eru að negla niður þá stefnu sem núverandi stjórnvöld hafa tekið og er gjörbreytt frá því sem var á síðasta kjörtímabili varðandi innviði samfélagsins og breyttar áherslur í velferðarmálum í landinu og uppbyggingu innviða.

Ég ætla að fara aðeins yfir það sem fellur undir þá þætti sem ég nefndi. Það sem snýr að launafólki í þessu fjárlagafrumvarpi er atvinnuleysisbótatímabilið sem á að skerða um hálft ár sem er gífurleg afturför frá því samkomulagi sem var gert milli aðila vinnumarkaðarins 2005. Fjöldi fólks stendur frammi fyrir því um áramótin að hafa ekki það öryggisnet sem atvinnuleysisbætur eru og þarf að leita til sveitarfélaga með fjárhagsaðstoð og það er ekki einu sinni sjálfgefið að hún sé til staðar.

Það er starfsendurhæfingin. Hún er skert þótt það hafi komið eitthvert fé inn í hana á milli umræðna.

Það er jöfnun örorkubyrði almennra lífeyrissjóða, þ.e. lífeyrissjóða verkafólks og sjómanna sem eðlilega hafa þyngri örorkubyrði en aðrir sjóðir. Það var ákveðið að fresta skerðingu þar um eitt ár, en eftir sem áður stendur til að það verði að veruleika að ríkið hætti að jafna örorkubyrði þessara sjóða. Það er mikil afturför og er gert líka án samráðs við verkalýðshreyfinguna og þýðir að bætur þessara lífeyrisþega munu í framtíðinni skerðast um hátt í 5%.

Það er virðisaukaskattur á matvæli. Hækkanir á matvælum sem fram undan eru munu hafa gífurleg áhrif á hag launafólks í landinu.

Það eru bætur almannatrygginga sem munu ekki hækka um 3,5% vegna vísitölutryggingar eins og kom fram í fjárlagafrumvarpinu, heldur einungis 3% vegna hjöðnunar verðbólgu. Mér finnst mjög óeðlilegt að sá hópur sem hefur þurft að taka á sig miklar skerðingar vegna hrunsins fái ekki að njóta þess sem var áætlað í fjárlögum, þess sem ráðgert var að leggja í þennan málaflokk, og að ekki sé litið á það sem bónus þessa hóps að verðbólgan hafi lækkað.

Síðan er það velferðarkerfið og heilbrigðismálin. Þar undir er gífurleg kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem boðuð er í frumvarpinu, 1,9 milljarðar með S-merktu lyfjunum og aukinni greiðsluþátttöku langveikra á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Það er Landspítalinn okkar. Hann hefur vissulega fengið aukið fjármagn milli umræðna um fjárlögin, en það er langt frá því að vera nægjanlegt. Minni hlutinn lagði til í breytingartillögum sínum að meira fjármagn yrði lagt í Landspítalann, en það var fellt. Ég held að við landsmenn allir eigum að hafa miklar áhyggjur af því hver verður framtíð uppbyggingar á Landspítalanum miðað við hvernig menn draga því miður lappirnar, því miður, þó að menn tali þannig að allir hafi áhuga á að byggja upp og bæta aðstöðu á Landspítalanum. Það þarf að styrkja vinnuumhverfi starfsfólks og bæta til þess að halda hæfu starfsfólki og til þess að liðka til um samninga við lækna, en vegna verkfalls þeirra blasir við enn erfiðara ástand í þeim málum eftir áramót ef fram heldur sem horfir.

Skorið er niður framlag til þjónustu vegna kynferðislegs ofbeldis. Það er líka áhyggjuefni, vegna þess að það kemur kannski fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Það er bætt eitthvað í þessa þætti á höfuðborgarsvæðinu, en landsbyggðin liggur óbætt hjá garði í þeim efnum.

Það er aðför að menntun og framhaldsmenntun í landinu. Skert aðgengi að námi 25 ára og eldri í bóknámi í framhaldsskólunum mun hafa gífurleg áhrif á búsetu á landsbyggðinni. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þessi mál þróast þar sem það hefur stutt mjög við þessi byggðarlög að fólk eldra en 25 ára hafi þann möguleika að stunda nám í heimabyggð og sækja framhaldsskóla þar en þurfi ekki að rífa sig upp með rótum og flytja um langan veg sem verður oftar en ekki til þess að fólk snýr ekki til baka.

Það eru háskólarnir. Við höfum rætt mikið um háskólana og fjármagn til þeirra. Enn er togast um útfærslu á fjármagni til háskóla eins og Háskólans á Akureyri og hvernig hægt er að skipa þeim málum. Ég hef talað fyrir fjármagni til þessara landsbyggðarháskóla, Háskólans á Hvanneyri, á Hólum og Háskólans á Bifröst. Þetta eru allt háskólar sem eiga fullan rétt á sér og hafa sýnt það í sínum störfum að þar er mikill metnaður í gangi. Vissulega komu einhverjir fjármunir inn milli umræðna til þessara háskóla, en það þarf líka að hafa framtíðarsýn gagnvart háskólunum til þess að það sé starfsöryggi og menn geti haft sýn til lengri tíma og það sjái sér stað í fjárveitingum og menn viti hvert menntayfirvöld stefna. Sú óvissa sem hefur ríkt er óviðunandi.

Ég nefni nám eins og dreifnámið sem er mikið áhyggjuefni eins og við framhaldsdeildina á Patreksfirði þar sem ekki voru lagðir til meiri fjármunir eins og ég og fleiri lögðum mikla áherslu á í 2. umr. um fjárlögin. Það blasir við að ekki verði hægt að taka inn þá nemendur sem sækja um nám. Er það sorglegt miðað við þá uppbyggingu sem á sér stað í Vesturbyggð þessa dagana.

Menntaskólinn á Ísafirði. Hann er settur hjá og hefði þurft að fá meira fjármagn til þess að geta rekið sig með eðlilegum hætti. Það hefur flogið fyrir að menntamálaráðuneytið eða ráðherra sé með vangaveltur um að sameina menntaskólann við annan framhaldsskóla og vona ég að sú sögusögn eða þær hugmyndir verði ekki að veruleika.

Ég nefndi hér áðan aðför að náttúru landsins sem ég tel vera ef það gengur eftir að settur verði á ferðamannapassi eða reisupassi eða náttúrupassi eða hvaða nafn við viljum gefa slíkum passa. Í fjárlögum eru einungis settar 145 milljónir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er auðvitað ekki upp í nös á ketti. Menn verða að fara að lenda þessu í sátt við atvinnugreinina og sátt við þjóðina, því sá fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið kemur fyrst og fremst vegna náttúru landsins. Við verðum að ná einhverri samstöðu um það hvernig við viljum búa um þessa hluti, því að áhugi fólks á að koma til landsins getur breyst á stuttum tíma ef þessi mál eru í ólestri.

Fjárlögin eru aðför að samgöngum í landinu. Aldrei hefur svo lítið fé verið ætlað til nýframkvæmda, einungis eitthvað á milli 200 og 300 milljónir sem eru auðvitað bara smápeningar í þeim málaflokki. Það er verið að færa fjármuni frá nýframkvæmdum í viðhald vega, snjómokstur og annað. Auðvitað á að mæta þörf fyrir viðhald vega og snjómokstur beint úr ríkissjóði en ekki færa fé á milli liða undir samgöngumálum. Það er óviðunandi og hægt að nefna allar þær stórframkvæmdir sem bíða þess enn að verða boðnar út. Samgönguáætlun liggur ekki fyrir og þær framkvæmdir sem eru í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram á síðasta ári eru í raun og veru allar í uppnámi. Ég nefni Dýrafjarðargöng, uppbyggingu vegar yfir Dynjandisheiði og uppbyggingu vega á Vestfjarðavegi 60, að ljúka þeim framkvæmdum. Og fyrir norðan eru þær framkvæmdir sem hafa verið nefndar hér og bíða þess að fara í útboð — í raun og veru er algjör óvissa um framhald uppbyggingar og nýframkvæmdir, það er óásættanlegt og óvissa fyrir alla, hvort sem er fyrir þá sem vinna við vegaframkvæmdar eða fyrir þann geira eða þá landsmenn sem búa á þessum svæðum og hafa ekkert í hendi með hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjármunum í þessi verkefni. [Kliður í þingsal.]

Þetta er aðför að byggðastefnunni og samgönguáætlun og upphlaup sem hefur verið varðandi þessi mál, að taka út fyrir sviga einstök landsvæði og vinna (Forseti hringir.) ekki að samgönguáætlun, er óásættanlegt.

(Forseti (ÓP): Þögn í salnum.)

Sóknaráætlunin er það verkfæri sem við eigum að nýta og hefur gefist vel, en ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera hana niður við trog. Þótt stjórnarandstöðunni hafi tekist að berja inn einhverja fjármuni þar til viðbótar eru fjármunir til sóknaráætlunar auðvitað allt of lágir, einungis 100 milljónir en voru 400 milljónir árið 2013 og reiknað var með að fjármunir í sóknaráætlun mundu vaxa með ári hverju.

Niðurstaða mín gagnvart þessu fjárlagafrumvarpi er að það er verið að kúvenda stefnu í velferðarmálum og samfélagsmálum og það er verið að leggja þyngri byrðar á þá sem minna mega sín meðan þeim sem hafa næga fjármuni úr að spila og hafa verið að græða á tá og fingri eins og stórútgerðinni er hlíft. Þeim er hlíft, en þyngri byrðar lagðar á þá sem minna mega sín.