144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég ætti auðvitað að biðja forláts á því að hafa ekki minnst á Árneshrepp í þessu samhengi hér í þingsal, verandi nýbúin að skrifa jólakveðju til þeirra heiðurshjóna sem búa í Djúpuvík. Ég ætti eðlilega að halda því á lofti sem ég geri frá innstu hjartarótum að við eigum að leggja áherslu á að bæta samgöngur í Árneshreppinn og sýna því fólki virðingu sem hefur haldið áfram að rækta þar landið og byggja upp á slóðum forfeðra sinna og þar hafa nýir aðilar komið þar inn eins og heiðurshjónin sem ég nefndi sem reka Hótel Djúpuvík. Það ætti að vera metnaður okkar þingmanna að taka þetta út fyrir sviga. Jarðgöng hafa verið tekin út fyrir sviga og tekin fram fyrir á samgönguáætlun. Við þekkjum það, það hefur verið gert. Þetta svæði ætti að þurfa þess, því það skiptir menningu okkar miklu máli að þarna haldist byggð.

Eins og ég hef komið að áður varðandi Árneshrepp þá veit ég ekki betur en að fyrir liggi samþykkt þingsályktunartillaga, studd af öllum þingheimi, um að standa eigi við bakið á þessu svæði og varðveita á menningarlegum og byggðalegum forsendum. Ég veit að við hv. þingmaður getum ýmislegt gert ef við leggjumst á eitt í þessum málum, beitum öllum okkar þunga til þess. Ég treysti því að það verði verkefni okkar á því þingi sem heldur áfram að jólum liðnum.