144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að eigna mér þetta ágæta framlag til heimskautaréttarins í Háskólanum á Akureyri. Það er alveg rétt að ríkisstjórnin hefur það að markmiði, og við höfum haft þá stefnu, að styðja við öll þau verkefni sem snúa að norðurslóðum og heimskautarétturinn er vissulega þar.

Það sem er sérstakt við þetta breytingarákvæði er að þar er verið að taka 30 millj. kr. af lið sem ber heitið Háskólinn á Akureyri og færa á lið sem heitir rannsóknarmissiri, stjórnsýsla og stoðþjónusta.

Hér er fullyrt að það sé bannað samkvæmt lögum að segja háskólanum fyrir verkum en svo er lagt til í þessari tillögu að peningarnir verði nýttir í tiltekin verkefni. Sá málflutningur gengur ekki upp.

Ég held að við ættum ekki að gera upp á milli góðra verkefna hjá Háskólanum á Akureyri heldur styðja við bakið á heimskautaréttinum og styðja svo vel við bakið á Háskólanum á Akureyri. Ég fagna öllum ummælum um að samstaða sé um að við komum háskólanum í stórsókn.