144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Guðs miskunn er það fyrsta sem deyr í hörðu ári, segir í frægri bók eftir Halldór Kiljan, en hjá þessari ríkisstjórn virðist það helst vera góðærið sem verður guðs miskunn að aldurtila. Ríkisstjórnin er núna í annað skipti að samþykkja framlög til þróunarsamvinnu sem er langt undir því sem Alþingi var sammála um árið 2011 að við ættum að láta af höndum rakna til fátækustu þjóða í heimi. Þessi framlög hafa skilað sér vel. Þau hafa farið til mæðra, til barna, í menntun og heilsugæslu. Á þeim tíma sagði hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra að þetta væri skynsamleg ráðstöfun.

Núna þegar hver þingmaður á fætur öðrum úr stjórnarliðinu segir að hér drjúpi smjör af hverju strái skera menn samt sem áður niður frá áður samþykkti áætlun. Og hvenær eigum við að geta staðið við það sem við lofuðum og gáfum fyrirheit um ef ekki núna? Sennilega aldrei undir þessari ríkisstjórn.