144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að við erum hér að greiða atkvæði um fjármagn til Bankasýslunnar. Frumvarp er væntanlegt, eins og komið hefur fram í umræðum, frá hæstv. fjármálaráðherra varðandi það sem á að taka við þegar Bankasýslan lýkur störfum.

Kallað hefur verið eftir því að Bankasýslan haldi starfsemi sinni áfram á meðan það frumvarp er unnið og það komi hér inn í þingið. Með því er verið að tryggja fjármagn til Bankasýslunnar næstu sex mánuði og því ber að fagna. Það er mjög mikilvægt að þingið taki þessar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn til meðferðar, fari yfir armslengdarsjónarmið og annað sem verið hefur í umræðunni. Enda er það markmið okkar allra, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að tryggja að enginn vafi leiki á því hvernig farið er með eign ríkisins í fjármálafyrirtækjum og öðru sem heyrir undir Bankasýsluna í dag.