144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Að uppistöðu til er innihald fjárlaga gott. Það eru fjárveitingar til að reka samfélagið okkar saman. Þótt auðvitað megi deila um einstaka liði þess þá vonast ég til þess að almennt sé það þannig að við treystum því að ekki sé verið að eyða opinberum fjármunum í óþarfa og að uppistöðu til sé verið að ráðstafa þeim til brýnna samfélagslegra þarfa. Það á að sjálfsögðu að mestu leyti við um þetta frumvarp eins og önnur þó að við séum ekki sátt við ýmis einstök ákvæði þess.

Áhyggjuefni mín tengjast því að hér er verið að loka fjárlögum með aðeins 3,5 milljarða áætluðum afgangi á næsta ári. Það er innan við 0,2% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir að sáralítið má út af bera, ef mælingar Hagstofunnar núna reynast til dæmis réttar, að hagvöxtur sé mun daufari en menn bundu vonir við, þá gæti niðurstaðan orðið halli á fjárlögum.

Það væru að sjálfsögðu mikil vonbrigði ef jákvæð þróun í ríkisfjármálum á Íslandi allt frá árinu 2009 snerist nú yfir í neikvæða þróun og afgangur á fjárlögum á næsta ári yrði minni en á þessu ári eða jafnvel enginn. (Forseti hringir.) Af því hef ég áhyggjur og hefði viljað sjá miklu myndarlegri tölu þarna sem auðvelt hefði verið að skila ef ríkinu hefði haldist betur á tekjum sínum.