144. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2014.

jólakveðjur.

[22:26]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Ég vil við þetta tækifæri þakka varaforsetum samstarfið svo og formönnum flokkanna og þingflokkanna fyrir góða samvinnu síðustu dagana um skipulag þingstarfanna. Ég vil einnig láta í ljós ánægju mína með að okkur hefur tekist að standa að mestu leyti við starfsáætlun Alþingis á þessu haustþingi. Að mínu mati er afar þýðingarmikið að hver og einn alþingismaður geti á grundvelli starfsáætlunar þingsins og vikuáætlana skipulagt störf sín vel. Ég minni á að gerðar eru miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um þátttöku í margs konar stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins. Mikilvægur þáttur í starfi þingmanna er að rækta tengsl við kjördæmi sín en slíkt kallar á ferðalög og fjarvistir frá þingstaðnum. Síðast en ekki síst er starfsáætlunin liður í því að þingmenn geti, rétt eins og aðrir, skipulagt samveru með fjölskyldu sinni. Sú krafa er eðlileg í nútímasamfélagi og að auki mikilvæg forsenda þess að til að mynda yngra fólk taki þátt í stjórnmálum á vettvangi Alþingis. Það er því brýnt að allir sem að þinghaldinu koma geti skipulagt störf sín og verkefni í samræmi við samþykkta starfsáætlun og treyst því að ekki sé vikið frá henni nema í undantekningartilvikum. Til að þetta megi ganga eftir þurfa allir að leggjast á eitt, jafnt ráðherrar sem þingmenn. Þingmenn þurfa að gæta að því að dagskrá þingfunda fari ekki úr böndum og ráðherrar verða að huga tímanlega að þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fyrir Alþingi, eins og ég hef þráfaldlega bent á.

Ástæða er til að vekja athygli þingmanna á þeirri þróun sem hefur orðið á þeim þætti þingstarfanna er lýtur að fyrirspurnum til ráðherra. Á haustþinginu hafa verið lagðar fram 215 fyrirspurnir þar sem óskað er eftir skriflegum svörum ráðherra. Hér er um að ræða mjög mikla breytingu. Ef þróunin verður svipuð á þeim tveimur starfsönnum sem eftir eru þessa þings verða slíkar fyrirspurnir á þessu eina þingi orðnar mun fleiri en á öllu síðasta kjörtímabili. Á sama tíma hefur fækkað fyrirspurnum þar sem óskað er eftir munnlegu svari ráðherra. Þessi þróun er umhugsunarverð og vekur eðlilega þá spurningu hverju þetta sæti.

Ég vil fyrst nefna að þróunarinnar í þessa átt gætti þegar á síðasta kjörtímabili 2009–2013, en á því tímabili voru fyrirspurnir til skriflegs svars alls 513 miðað við 403 á kjörtímabilinu 2003–2007 og 372 á kjörtímabilinu 1999–2003. Að einhverju leyti er líklegt að þetta haldist í hendur við þá breytingu sem var gerð á þingsköpum í árslok 2007 og var meðal annars ætlað að styrkja eftirlitshlutverk þingsins. Ein þessara breytinga fól í sér að óundirbúinn fyrirspurnatími til ráðherra sem verið hafði á dagskrá í upphafi annarrar hverrar viku varð framvegis tvisvar sinnum í viku. Við þetta fjölgaði eðlilega óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra og gætti þeirrar þróunar fljótt eftir breytinguna. Óundirbúnum fyrirspurnum var ætlað að vera vettvangur pólitískrar umræðu um þau mál sem hæst bar hverju sinni. Á sama tíma dró mjög úr framlagningu fyrirspurna þar sem óskað er eftir munnlegu svari ráðherra. Við fyrstu sýn virðist mér að aukinn möguleiki þingmanna til að beina óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra kunni að hafa dregið úr framlagningu fyrirspurna þar sem óskað er munnlegs svars. Það mikla stökk sem orðið hefur á þessu haustþingi, aðeins einni starfsönn, á framlagningu fyrirspurna til skriflegs svars er þó erfitt að skýra með fullnægjandi hætti og í raun verðum við að bíða og sjá hvort þetta sé varanleg breyting eða þróun. Ég verð hins vegar að segja að ég tel það ekki æskilega þróun ef hefðbundnar fyrirspurnir eiga eftir að þróast í þá átt að verða fyrst og fremst í því formi að ráðherrar leggi fram skrifleg svör. Gildi fyrirspurna felst ekki síst í því að þær bjóða upp á markviss og snörp skoðanaskipti þingmanna og ráðherra sem allir geta fylgst með og tekið þátt í. Til þess að slík skoðanaskipti um málefni líðandi stundar geti átt sér stað er líka nauðsynlegt að fyrirspurn til munnlegs svars taki mið af ákvæðum þingskapa, en þar segir að fyrirspurn eigi að vera skýr, um afmörkuð atriði og við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.

Mér þykir nauðsynlegt að bæta hér við að þó að fyrirspurnum til skriflegs svars hafi farið fjölgandi á síðustu árum hefur slíkt ekki komið niður á svarshlutfalli. Staðreyndin er sú að það hlutfall hefur batnað þrátt fyrir stóraukið álag á ráðuneyti og stofnanir samfara mikilli fjölgun fyrirspurna. Almennt vil ég láta í ljós ánægju mína með frammistöðu ráðherra og starfsfólks þeirra þrátt fyrir vaxandi álag sem fjölgun fyrirspurna óneitanlega veldur í störfum ráðuneyta án þess að við því hafi verið sérstaklega brugðist með auknum fjárveitingum eða mannahaldi.

Ég vil að lokum ítreka þakkir til varaforseta fyrir ánægjulega samvinnu um stjórn þingfunda. Ég vil einnig færa þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis, kærar þakkir fyrir gott samstarf á haustþinginu, óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og þakka samstarfið á því ári sem nú er brátt á enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.