144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

forsendur kjarasamninga og samningar við lækna.

[13:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ef beita á krónutöluhækkunum þá munu ekki allir fá 3,5%; lægstlaunaða fólkið mun fá meira og meðaltekjufólkið minna. Hæstv. forsætisráðherra er þá með þessu að gefa þá yfirlýsingu að meðaltekjufólk eigi ekki von á nokkrum kjarabótum í komandi kjarasamningi, það verður ekki skilið öðruvísi. Er hann með öðrum orðum að segja að hjúkrunarfræðingar, sem teljast til meðaltekjuhópa en ekki lágtekjuhópa, eigi þá ekki von á kjarabótum til samræmis við þær kjarabætur sem læknar hafa fengið nú?

Hann getur ekki heldur horft fram hjá því að breytingar á skattkerfinu í haust skiluðu mestum krónutöluávinningi hjá hæst launuðu tekjuhópunum. Þeim ávinningi var mjög misskipt.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvert er heildarsvigrúmið til kauphækkana sem hann er að boða? Er það meira en 3,5%? Ef það er 3,5% þá er augljóst að hann er hér að boða, með krónutöluhækkunum, að meðaltekjufólk eigi ekki að fá neinar kjarabætur í komandi kjarasamningum.