144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

slit aðildarviðræðna við ESB.

[13:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég óska þingheimi og forseta gleðilegs árs. Það þarf líklega ekki að rifja það upp í löngu máli hve mikið uppþot varð hér á þingi og á meðal þjóðarinnar þegar ríkisstjórnin kom alveg fyrirvaralaust inn í þingið með tillögu um að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið þvert á loforð sem báðir flokkar höfðu gefið um að þjóðin hefði aðkomu að því í atkvæðagreiðslu að ákveða hvort viðræðunum yrði haldið áfram.

Þessi tillaga mætti mikilli andstöðu og ég vonaðist til og vonast enn til að þingheimur allur og þjóðin, almenningur, hafi dregið þann lærdóm af þeirri rimmu að þetta mikla deilumál, aðild að Evrópusambandinu og áframhald viðræðnanna við Evrópusambandið, yrði að leiða til lykta með uppbyggilegri hætti. Mig rekur minni til þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt í öllu havaríinu að það væri greinilegt að ljúka yrði þessu máli með aðkomu þjóðarinnar alveg eins og báðir flokkarnir sögðu í kosningabaráttunni.

Ég er því svolítið hissa eftir að hafa hlustað á viðtöl við hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra þar sem mér heyrist þeir segja að þeir vilji koma aftur hingað inn með tillögu um að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni ekki að koma að ákvörðun um það stóra mál og ganga þar á svig við öll loforð.

Mér leikur hugur á að vita hver afstaða hæstv. fjármálaráðherra er til þessa máls og hvort ekki megi treysta því að hann og hans flokkur verði rödd skynseminnar og reyni að beina því í uppbyggilegri farveg.