144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

slit aðildarviðræðna við ESB.

[13:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er tekið á dagskrá mjög stórt mál í þessum fyrirspurnatíma sem snýst um afstöðu Íslands til samskiptanna við Evrópusambandið og formlega stöðu aðildarumsóknarinnar. Allir sem hafa fylgst með framgangi mínum í því máli í gegnum árin vita að ég greiddi atkvæði gegn því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og fer fyrir flokki sem vill halda Íslandi utan Evrópusambandsins. Það er okkar stefna.

Ég studdi á síðasta ári tillögu hér í þinginu, stóð að því ásamt utanríkisráðherra að hún kom fram, um að aðildarumsóknin yrði afturkölluð. (Gripið fram í.) Það sem er einkennandi fyrir umræðuna í dag og kannski allt frá því fyrir ári síðan er að þetta snýst allt um formið, um það með hvaða hætti við eigum að leiða fram vilja meiri hluta þingsins. Mér finnst verulega mikið vera gert úr því hvort Ísland hefur formlega stöðu umsóknarríkis þegar fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur engin áform um að halda viðræðunum áfram, hefur leyst upp samningahópana og hefur ekki á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst mjög mikið úr því gert að ríkisstjórnin vilji koma fram með þennan vilja og lýsa honum með atkvæðagreiðslu í þinginu.

Hverju mundi það í sjálfu sér skipta að fá þá niðurstöðu fram að ekki ætti að slíta viðræðunum, eða ef ríkisstjórnin tæki þá afstöðu að fara ekki í viðræðuslit, þegar fyrir liggur að hún ætlar ekki að standa að viðræðum? Það eina sem það mundi gera væri að málið héngi í lausu lofti og Ísland yrði áfram formlega skráð sem umsóknarríki sem er í mínum huga algjört formsatriði, efnislega er Ísland ekki í neinum aðildarfasa, ekki í neinum viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið.

Myndist fyrir því meiri hluti í framtíðinni og komist til valda ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem hyggur á inngöngu í Evrópusambandið (Forseti hringir.) þá er hægt, innan eins kjörtímabils, (Forseti hringir.) að sækja um og ljúka slíkum aðildarviðræðum.