144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

vernd tjáningarfrelsis.

[14:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér heyrist enn á hv. þingmanni að við séum á svipuðum slóðum í þessum málum og viðurkennum það báðir að þrátt fyrir mikla áherslu á mikilvægi þess að verja tjáningarfrelsið sé því að sjálfsögðu ákveðnar skorður settar hversu langt megi ganga, t.d. í því að vega að fólki af hinum ýmsu ástæðum. Hv. þingmaður talar sérstaklega um hatursáróður og ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég er sammála honum um að það þarf í lögum að setja því skorður hvað menn geta leyft sér að segja. Þá eru þeir til, og þeir eru fjölmargir, sem halda því fram að sú útgáfa sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um, franska blaðið Charlie Hebdo, hafi viðhaft mjög grófan hatursáróður og þar af leiðandi er eðlilegt að menn velti fyrir sér, eins og hv. þingmaður veltir reyndar upp sjálfur í tengslum við þessa umræðu, hvað sé hatursáróður og hvað ekki.