144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

hagvöxtur.

[14:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég reikna með að við séum báðir á sama fundinum, ég og hæstv. forsætisráðherra. Ég var ekki að tala um hættu á þenslu, ég var að vitna í opinberar tölur um að hagvöxtur á Íslandi væri að mælast á fyrstu níu mánuðum ársins 0,5%. Hvar hefur það komið fram að það yrði leiðrétt nema innan úr Stjórnarráðinu? Þetta eru bara tilfinningar hjá tilfinningasömum mönnum sem halda að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Hagstofan hefur þvert á móti neitað því að leiðrétta að ósk hæstv. forsætisráðherra eða annarra stjórnmálamanna þær tölur sem þarna koma fram, stendur fast við það að hagvöxtur á Íslandi er langt, langt undir spám, um og innan við tíundi hluti þess sem þáverandi stjórnarandstöðuþingmaður, hæstv. núverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, taldi að væri ásættanlegt fyrir þremur, fjórum árum. Og þegar við bætist síðan að viðskiptajöfnuður við útlönd er á núlli, 0,25% af þjóðarframleiðslu á síðasta ári, þá má líka bæta þeirri spurningu við hvernig í ósköpunum(Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra ætli að standa við loforð sem hann gaf í áramótaræðu sinni (Forseti hringir.) um að bæta kjör láglaunafólks og millitekjuhópa þegar verðmætasköpun í landinu dugar ekki til.