144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

háspennulögn yfir Sprengisand.

[14:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega fyrir frómar óskir og góðar kveðjur, en þakka jafnframt hv. fyrirspyrjanda Steingrími J. Sigfússyni fyrir fyrirspurnina sem og góðar óskir í minn garð. Mér þykir vænt um að fá þessa fyrirspurn frá þingmanninum. Það er alveg rétt sem hann getur um, í ráðuneytinu er í undirbúningi landsskipulagsstefna og mun koma fljótlega fyrir Alþingi. Hins vegar er ég ekki sammála fyrirspyrjandanum um að það sé eðlilegt að ég úttali mig mikið um þessi málefni, þau eru ekki á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, það eru aðrir ráðherrar sem fara bæði með vegagerð sem og raforkumálin og línulagnir í landinu þannig að ég ætla ekki að úttala mig um það á þessu stigi. Ég er búin að segja að mér finnst hvorki rétt að leggja malbikaðan veg né setja háspennulagnir yfir Sprengisand. Hins vegar finnst mér alveg geta komið til greina að við getum lagt þær í jörðu. Ég veit að það kostar mikið, en mér finnst eðlilegt að fyrirspyrjandi beini þessari fyrirspurn síðar til þeirra ráðherra sem eru með þetta á sínu verksviði.