144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

háspennulögn yfir Sprengisand.

[14:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér er að sjálfsögðu ljóst að orkumál heyra annars staðar undir sem og vegamál. Innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra fara formlega með forsvar þeirra mála en umhverfismál og skipulagsmál heyra undir verksvið hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem og þjóðgarðar og friðlýst svæði. Þannig vill til að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir eiga að þræða tiltölulega mjótt sund milli Vatnajökulsþjóðgarðs annars vegar í austri, stærsta þjóðgarðs Evrópu, og friðlands í Þjórsárverum í vestri hins vegar. Það er alveg ljóst að komi til þessara framkvæmda munu þær marka mjög næsta umhverfi þessara svæða sem hæstvirtum ráðherra ber auðvitað að standa vörð um.

Ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. ráðherra til að íhuga hvort það sé ekki einmitt á verksviði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að hafa frumkvæði að því að á meðan landsskipulagsstefnan er í mótun og þangað til Alþingi hefur fjallað um hana og þangað til Alþingi hefur lokið (Forseti hringir.) endurskoðun lagarammans um raflínur og jarðstrengi verði ekki teknar neinar frekari ákvarðanir í þessum efnum.