144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:28]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. þm. Guðbjart Hannesson nokkurra spurninga til þess að átta mig betur á skoðun hans á frumvarpinu sem er til umfjöllunar.

Ég er sammála honum um það að frumvarpið er ekki fullkomið, ekki frekar en margt annað sem við fáumst við hér, en hins vegar tel ég það tvímælalaust skref í rétta átt. Það er tvennt sem mig langar að spyrja að. Það er annars vegar að í framhaldsskólalögunum er tilgreint að vinnudagar í framhaldsskóla skulu vera 180. Eina breytingin sem þarna er gerð er að sett er inn reglugerðarheimild og ég átta mig ekki á því hvernig hún verður til þess að hægt sé að taka einhliða ákvarðanir hér eftir frekar en hingað til, þar sem þetta ræðst síðan af kjarasamningum og ýmsu öðru í umhverfinu.

Hins vegar vitum við öll sem höfum farið í gegnum framhaldsskóla að eins lengi og elstu menn muna hér á landi hefur verið skortur á góðu námsefni fyrir framhaldsskólanemendur. Það er brýnt að gera eitthvað til þess að örva framboð á efni.

Ég tek alveg undir að mikilvægt er að svara mörgum þeim spurningum sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom með um rafræna námsefnið. Ég lít þannig á að tilraunaverkefninu sem hér er lagt til, að með sérstöku leyfi ráðherra verði heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni sem þeir ákveða að nýta í kennslu, sé ætlað að svara þeim spurningum sem er ósvarað um þetta efni hvað varðar hversu mörgum sameiginlegum gagnagrunnum eða svokölluðum „platformum“, fyrirgefðu forseti, þarf að koma á fót. Er hv. þm. Guðbjartur Hannesson ekki sammála mér um að tilraunaverkefni muni geta svarað þeim spurningum sem við þurfum að fá svar við til að taka næstu skref?