144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur milli mín og hv. þingmanns, hvorki um markmiðin né það hversu mikilvægt það er að bæta hér námsefnisútgáfu og bæta umhverfið hvað það varðar.

Ég benti á það í umræðunni í nefndinni að á borðinu eru tillögur um það að sameina Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun í nýja stofnun og hefði verið skynsamlegt að styrkja þá sameiningu og setja í svipað umhverfi í kringum námsgagnaútgáfuna, bæði Þróunarsjóð námsgagna og Námsgagnasjóð og verið hefur í grunnskólum. Námsgagnasjóður hefur verið að rýrna, sjóður sem er einmitt opnun leiðar til þess að styrkja námsbókaútgáfu á frjálsum markaði í samkeppni við það sem verið er í raun að vinna á vegum ríkisins til að auka námsgagnaútgáfu. Sama er með þróunarsjóðinn.

Ég tel að það sé enginn ágreiningur um að við þurfum að fara í þessi tilraunaverkefni, það er enginn ágreiningur um að bæta þetta umhverfi. Ágreiningurinn er um hver á að borga það. Ég tel ekki réttlætanlegt að leggja það á nemendur. Ég tel það þetta sé nákvæmlega verkefni sem einmitt í fyrstu lotu eigi að vera tekið upp sem hluti af skólastefnu ríkisvaldsins og fjárveitingavaldsins að tryggja fjármagn til þess. Þetta eru ekki það stórir peningar. Það er óeðlilegt að láta nemendur kosta tilraunina. Fyrir utan að við höfum ekki — þótt ég geri mér grein fyrir að það komi einhvern tímann reglugerð — við höfum enga tryggingu fyrir því hvaða heimild við erum að opna á.

Það er mjög athyglisvert að greinin hljóðar svo eftir breytingu, 2. gr., að það kemur á eftir efnisgjaldi: „… og gjalds fyrir rafrænt námsefni.“ Það er ekki tilgreint nánar með tilraunina í greininni sjálfri. Það kemur svo aftar um það að þarna eigi að vera tilraunaverkefni sem verið er að prófa einhvern ákveðinn tíma.

Varðandi framhaldsskólalögin og 180 dagana kann að vera að ég sé að misskilja. Á að halda dagafjöldanum inni í lögunum? Ég skil þetta ekki þannig. Það er verið að taka þann þátt út úr lögunum og segja að það eigi að ákveða starfsáætlun framhaldsskólans með reglugerð. Þar með er ákvörðunarvaldið komið undir borðið og án opinberrar umfjöllunar fagfélaga og Alþingis. Það er það sem ég er að gagnrýna.