144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. þingmanni svörin. Ég held að við séum í grundvallaratriðum sammála um markmiðin. Ég tel hins vegar afskaplega mikilvægt að hefja tilraunaverkefni á þessu sviði. Ég tek líka undir það að ég tel afskaplega mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd fylgist vel með framkvæmdinni. Ég tel líka samhliða því að ef opnað verður á þá leið varðandi tilraunir með rafrænt námsefni þá sé mikilvægt að námsgagnasjóðirnir nýtist einmitt á sama sviði þannig að það sem þar verði gert nýtist samhliða til að hvetja til meiri útgáfu á rafrænu námsefni.

Vissulega stendur í núgildandi framhaldsskólalögum að í fjárlögum skuli tilgreina ár hvert þá fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Enn hefur engu fé verið úthlutað á fjárlögum í þessu skyni, það hefur aldrei verið gert. Þegar kemur að því að það verði gert getur þingmaðurinn þá ekki verið sammála mér um að mikilvægt sé að við höfum grunn að byggja á varðandi rafræna námsefnið? Við höfum þá meiri þekkingu á útgáfu og þörfum og því hvernig rafrænt námsefni muni geta nýst í framhaldsskólunum þannig að við bíðum ekki eftir því að við höfum nægilegt fjármagn heldur tökum fyrstu skrefin.