144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði að koma upp og spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson aðeins út í ræðu hans og út í frumvarpið sem lýtur að rafrænum námsgögnum.

Ég vil samt byrja á að segja að ég held að við nefndarmenn hv. allsherjar- og menntamálanefndar séum öll sammála um að bæta verði gæði námsefnis og auka úrval fyrir nemendur. Ef ég tala fyrir sjálfa mig vill maður sjá fjölbreyttari útgáfu sem kemur betur til móts við mismunandi þarfir og mismunandi getu nemenda. Ágreiningurinn snýr mest að áhyggjum varðandi kostnað, hver muni bera kostnað af því.

Undanfarin ár, eða þetta eru mörg ár, hefur það verið töluverð breyting að fara úr grunnskóla í framhaldsskóla því að þar fá nemendur bækurnar ekki lengur afhentar hjá kennara, þau námsgögn sem á þarf að halda, heldur þurfa heimilin að standa undir kostnaði við bókakaup. Ég man sjálf að kostnaður var talsverður. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns að þetta væru um 60–80 þúsund á nemanda á ári, ef ég heyrði rétt. Ég þekki örlítið til framhaldsskólanna í dag þar sem ég á nemanda í framhaldsskóla. Það sem ég hef verið ánægð með er að sjá aukna útgáfu og aukið úrval bóka sem kennarar afhenda nemendum rafrænt. Kostnaðurinn við það fyrir nemandann er mun minni en við að kaupa bókina úti í búð.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að minni bókakostnaður gæti verið til bóta fyrir heimili landsins? Telur hann að rafræn námsgögn geti falið í sér minni kostnað fyrir heimili landsins?