144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina eða andsvarið. Í fyrsta lagi varðandi bókakostnaðinn þá tók ég fram í ræðu minni að til langs tíma munu rafræn námsgögn vonandi og væntanlega minnka kostnað fólks. Kannski einmitt þess vegna finnst mér svo mikilvægt að ríkið hafi frumkvæðið og noti ekki gjaldtöku hjá nemendum til að koma þessu í gegn. Það eru rökin mín fyrir því. Það er engin ágreiningur um hvort þetta þurfi að gera, það átti vera búið að gera fyrir löngu. Það að segja að við höfum ekki gert þetta hingað til — það er nýbúið að setja þetta inn í lögin. Þau hafa verið samþykkt af Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu. Ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega hverjir greiddu atkvæði og hvernig en það hefur ekki verið ágreiningur um þetta atriði, að það eigi stefna að því að minnka þennan kostnað og helst að fella hann niður. Af hverju er skrefið ekki stigið núna með þessari breytingu? Ég skil það ekki og um það er ágreiningurinn.

Ég geri mér alveg grein fyrir breytingunni sem verður þegar farið er úr grunnskóla í framhaldsskóla og því að heimilið þurfi að standa undir verulegum kostnaði. Við vitum hvernig skiptibókamarkaðurinn hefur verið nýttur. Við vitum líka að þeir sem eiga mörg börn hafa getað látið bækurnar ganga á milli einstaklinga. Verður það hægt með rafræn gögn? Mun það verða tryggt í nýrri reglugerð að það verði ekki nýr kostnaður með næsta barni sem er ári yngra? Við höfum ekki fengið nein svör við þeim spurningum. Það er ekki búið að útfæra þetta. Hér er meiri hlutinn að fara að afgreiða óútfylltan tékka þar sem nemendur í landinu eiga að standa fyrir þróun á rafrænum námsgögnum.