144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir svarið. Við erum greinilega sammála um að við viljum minnka þann kostnað sem nemendur eða heimili landsins þurfa að bera er varðar skólagöngu barna.

Hér er um að ræða tilraunaverkefni til ákveðins tíma. Ég er sammála hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur um að ég tel að þetta tilraunaverkefni, að leyfa því að fara í gang, muni svara þeim spurningum sem við erum að leitast eftir varðandi frumvarpið. Ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist ekki mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd fylgist mjög vel með framgöngu þess hvernig verkefnið gangi. Eru einhverjir hnútar á því sem við þurfum að leysa? Er eitthvað sem við þurfum að bregðast við? Finnst hv. þingmanni það ekki til bóta ef við setjum það sem ákveðið skilyrði að við fáum á ákveðnum tíma upplýsingar um hvernig gangi og hvort við þurfum að bregðast við einhverjum þáttum?

Ef ég tala fyrir mig sjálfa er ég mjög spennt að sjá hvernig verkefnið mun koma út og vil svo sannarlega vona að það sé heimilum landsins og nemendum með mismunandi getu og mismunandi námslegar þarfir til bóta.