144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég held að við séum í rauninni að takast á um leiðir en ekki innihald og að það skipti miklu máli.

Ég tók fram áðan að ég tel mikilvægt að meiri hlutinn gefi þá túlkun samhliða afgreiðslu á morgun að koma eigi með reglugerðina inn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd áður en hún verður afgreidd, svo að ég svari því nú alveg skýrt.

Það hefur vakið athygli mína að til að fara af stað með tilraun og til að gera þessa hluti þá þarf enga heimild í lögum. Öll atriði nema 1. gr. í þeim lögum sem á að fara að afgreiða hér í dag eða á morgun eru óþörf. Þau eru óþörf. Það er ekkert af þeim sem þarf að fara í gegn, nema ef menn ætla að fara formlega í gjaldtöku hjá einstökum nemendum. Ef menn telja að þessi aðferð standi og falli með því vegna þess að ekki sé nægt fjármagn þá geta menn bara skoðað fjárlögin, hvernig þau voru afgreidd og hvaða upphæðir var verið að ræða. Þarna er ágreiningurinn. Hvaða skilaboð erum við að gefa, í hvaða framtíð ætlum við að stefna hvað varðar þetta?

Ég tel að við eigum það sameiginlegt, ég og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, að við viljum að kostnaðurinn verði lægri. Af hverju stígum við þá ekki fyrsta skrefið í þá átt núna í staðinn fyrir að láta undan framkvæmdarvaldinu að setja inn ákvæði um að fara í frekari gjaldtökur og opna þar með formlega í fyrsta skipti á lagasetningu að taka megi gjöld án þess að setja neinn ramma á það? Um það er ágreiningurinn.