144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir umfjöllun hennar um málið. Ég held að við séum um margt sammála í skólamálum en í grundvallaratriðum virðumst við vera ósammála um túlkun þess frumvarps sem við ræðum hér. Það sem ég tel okkur vera að ná fram með frumvarpinu finnst mér aftur á móti að Bjarkey telji að við séum ekki að ná fram með frumvarpinu.

En mig langar að byrja á að beina spurningunni til baka til Bjarkeyjar sem hún í rauninni kom með: Hvað mælir gegn því að samið sé við tiltekna skóla um framkvæmd tilraunaverkefnis á grunni þessa frumvarps? Það er akkúrat það sem ég sé að við erum að fara að gera. Hér er lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilt að innheimta gjald fyrir rafrænt efni. Það eru skólar sem eru að fara í tilraunaverkefni, en ekki einhverjir aðilar á markaði. Skólarnir geta hins vegar leitað samstarfs við bókaútgáfur, ef það er leiðin sem þeir telja vænlega, en fyrst og fremst er verið að semja við skóla. Nánar verður kveðið á um útfærslu, hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldu skóla í reglugerð og það er það sem ég tel líka vera ávinning, að fá fram hvaða leiðir eru færar. Kannski rekast menn á einhverja veggi í þessu sem þarf þá að komast yfir.

Hvað í frumvarpinu gefur til kynna að markaðsöfl ráði? Ég átta mig ekki alveg á því af því að þetta er alfarið hjá skólunum. Hins vegar er ég algerlega sammála að eftirlit vantar með útgáfu námsefnis og horfi mjög til þess frumvarps sem búið er að boða að komi fram á næstu vikum, um menntamálastofnun.