144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Samkvæmt því sem stendur hér verður skólunum með sérstöku leyfi ráðherra heimilt að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Rafræna efnið getur komið hvaðan sem er. Ég get ekki séð að verið sé að semja við tiltekinn skóla eða tiltekna skóla. Það segir líka, með leyfi forseta:

„Ekki er kveðið á um það í lögum hver ber ábyrgð á útgáfu námsefnis í framhaldsskólum né hver skuli greiða kostnað af þeirri útgáfu. Raunin er sú að útgáfa efnis er í höndum einkaaðila.“

Þetta gagnrýni ég af því að mér finnst að við þurfum að auka eftirlitið með þessu og mér finnst markaðsvæðingin þarna enn meiri en nú er. Það þýðir ekki að ég sé á móti því að fagaðilar gefi út rafrænt efni. Það má ekki misskilja mig. Mér finnst aðeins í ljósi þess að eftirlitið mætti vera betra að við þurfum við að byrja á því að athuga það og ég fæ því ekki skilið að semja eigi við tiltekna skóla. Þeim er einungis heimilað með 4. gr. að innheimta gjaldið og það er það sem þeir vilja nýta sér í kennslu, hvaðan svo sem efnið kemur.

Ég spyr: Var ekki hægt að semja um tilteknar námsgreinar við tiltekna skóla? Það er ekki áætlað fé í þetta. Það er mjög mikilvægt að það komi fram. Þess vegna get ég ekki séð að það verði samið við einhverja skóla. Það er ekkert fé áætlað í þetta. Það kemur fram í upphafi greinarinnar að það hefur ekki verið veitt fé, eins og við vitum, í sjóðinn áður og það eru ekki lagðir til auknir fjármunir vegna þessa verkefnis. Ég lít svo á að þá eigi ekki að ganga til samninga við skóla.