144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

greiðsludráttur í verslunarviðskiptum.

8. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum. Nefndarálitið er að finna á þskj. 587, mál nr. 8. Nefndin hefur nú haft málið til umfjöllunar öðru sinni og bárust umsagnir í seinna skiptið frá tveimur aðilum, Félagi atvinnurekenda og Motus ehf. Frumvarpið var lagt fram í fyrra sinn á liðnu ári á Alþingi, á 143. löggjafarþingi, á þskj. 633, mál nr. 338. Þá var því vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem tók það til efnislegrar meðferðar og óskaði skriflegra umsagna. Þá bárust umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands og Félagi atvinnurekenda. Nefndin afgreiddi málið með nefndaráliti til 2. umr. þann 12. maí 2014 á þskj. 1109. Í því nefndaráliti voru gerðar nokkrar athugasemdir við frumvarpið eins og það lá þá fyrir og lagðar fram breytingartillögur. Í því áliti segir meðal annars:

„Gerð var athugasemd við skýrleika 2. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um að mögulegt sé að framlengja greiðslufrest. Bent var á að ákveðin hætta væri á að 2. málsl. 2. mgr. „Slík framlenging má þó ekki verða lengri en 60 almanaksdagar“ verði misskilinn á þann veg að um sé að ræða framlengingu um 60 daga frá 30 daga frestinum. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að hætta sé á mistúlkun 2. málsl. 2. mgr. og leggur til að orðalagi greinarinnar verði breytt á þann veg að ljóst sé að greiðslufrestur geti ekki orðið lengri en 60 dagar.“

Hljóðar málsgreinin nú svo í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Mögulegt er að framlengja greiðslufrestinn í 1. mgr. ef slíkt kemur skýrt fram í samningi og slík framlenging er rökstudd á hlutlægan hátt í ljósi sérstakra eiginleika eða þátta samningsins. Greiðslufrestur getur þó ekki orðið lengri en 60 almanaksdagar.“

Kjarninn er kannski í síðustu setningunni, að greiðslufrestur geti þó ekki orðið lengri en 60 almanaksdagar.

Í fyrrgreindu áliti komu einnig fram athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins þess efnis að ekki væri nægilega skýrt hvernig skýra ætti greinina með hliðsjón af meginreglum um greiðslufrest í 3. og 4. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur áherslu á þann skilning að hér sé verið að vísa greiðsluferli í farveg greiðsluáætlana fremur en greiðsludráttar. Kemur það skýrt fram í ákvæði 5. gr. frumvarpsins sem hljóðar nú svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. er aðilum í verslunarviðskiptum heimilt að semja um afborganir með greiðsluáætlun.“ — Þar með er verið að vísa því í slíkan farveg greiðsluáætlunar fremur en greiðsludráttar.

Enn fremur segir í álitinu að í 6. gr. frumvarpsins sé heimild til þess að fara fram á sérstakar innheimtubætur að fjárhæð 6.700 kr. eða fjárhæð sem ekki er lægri en sem svarar 40 evrum, þ.e. í upphaflega frumvarpinu var kveðið á um 40 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma. Nefndin tók undir þá gagnrýni sem fram kom á 6. gr. frumvarpsins — nú er ég enn að vísa í fyrra álit — að tilgreina viðmiðunarfjárhæð innheimtubóta í erlendum gjaldmiðli eins og lagt var til í frumvarpinu og telur það ekki rétta þróun í lagasmíð. Nefndin taldi þannig rétt að notast við lögbundinn gjaldmiðil Íslands eins og nú væri gert ráð fyrir í 6. gr. frumvarpsins.

Að athuguðu máli telur nefndin að brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem nefndin gerði við frumvarpið þegar það var síðast lagt fram. Gerðar hafa verið breytingar til samræmis við þær tillögur sem nefndin lagði til í nefndaráliti sínu sl. vor. Þá hafa því til viðbótar verið gerðar orðalagsbreytingar á 7. gr. þar sem þýðing orðalags úr frumtexta tilskipunar Evrópusambandsins frá 16. febrúar 2011 þótti ekki nægilega nákvæm. Í frumtexta er notast við orðið „excluded“ og með leyfi forseta ætla ég að bera það hér fram en í íslensku þýðingunni var stuðst við íslensku orðin „takmarka eða útiloka“, þ.e. bæði. Þessu hefur nú verið breytt í að notast við orðið „útiloka“.

Hljóðar fyrsta setning 7. gr. því svo eftir breytingu:

„Ákvæði í samningi sem lög þessi taka til og útiloka dráttarvexti við greiðsludrátt skulu teljast bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar.“

Í þessu tilfelli var tekinn af allur vafi um það og um merkingu orðsins.

Í þeim umsögnum sem bárust um málið og ég vitnaði til í upphafi, þ.e. frá Félagi atvinnurekenda og Motus ehf., var annars vegar vakin athygli á því að brýnt er að gerðar verði breytingar á 36. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, sem girðir fyrir það að fyrirtæki setji eignarréttarfyrirvara á vörur sem ætlaðar eru til endursölu. Í því samhengi var vísað í að í 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2011 væri að finna ákvæði um gildi svokallaðra eignarréttarfyrirvara í verslunarviðskiptum og sú skoðun látin í ljós að þarft væri að innleiða hana í íslenskan rétt. Nefndin tók afstöðu til þessa sjónarmiðs við afgreiðslu málsins í vor og áréttar hér þann skilning sem fram kom í nefndaráliti þá. Fjallað er um slíka eignarréttarfyrirvara í lögum um samningsveð. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar felur hins vegar í sér tillögu um fyrirkomulag heildarlaga um greiðsludrátt á tilteknu sviði verslunarviðskipta sem heyrir undir atvinnuvegaráðuneytið. Það var því mat nefndarinnar að rétt væri að beina því til innanríkisráðuneytisins á hvers forræði samningsveðin eru að taka athugasemdina til nánari skoðunar í samhengi við endurskoðun ákvæða laga um samningsveð.

Þá var í þetta seinna sinn sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafði þetta mál til umfjöllunar gerð athugasemd við 6. gr. frumvarpsins sem snýr að innheimtubótum og frádrætti þeirra frá innheimtukostnaði samkvæmt innheimtulögum eða kostnaði við löginnheimtu. Í áliti nefndarinnar frá því í vor kemur fram að nefndin taldi mikilvægt að skýrt kæmi fram í 6. gr. frumvarpsins að innheimtubætur skyldu ávallt koma til frádráttar innheimtukostnaði en ekki að þær gæti komið til frádráttar eins og skilja mátti af þáverandi orðalagi 2. mgr. 6. gr. en gerði nefndin tillögu að breytingu í þá veru í vor sem var brugðist við. Að athuguðu máli þótti ekki ástæða til að breyta því og meðal annars má benda á að Norðmenn hafa farið sömu leið í túlkun sinni við innleiðingu tilskipunarinnar.

Nefndin telur því að frumvarpið með þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá því að það var síðast á borði hennar sé til þess fallið að styrkja verslunarviðskipti milli fyrirtækja og stofnana með því að reglur um greiðslufresti verði skýrari og úrræði kröfuhafa til þess að innheimta eða fá greiðslu aukin eða hert. Í ljósi þessa leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rituðu eftirtaldir hv. þingmenn og nefndarmenn hv. efnahags- og viðskiptanefndar á Alþingi þann 24. nóvember 2014: Frosti Sigurjónsson formaður, Willum Þór Þórsson framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, með fyrirvara, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, og Vilhjálmur Bjarnason.