144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

umferðarlög.

102. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, frá umhverfis- og samgöngunefnd.

Nefndin fjallaði um málið allítarlega og fékk ýmsa gesti á sinn fund sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu en ég ætla ekki að lesa upp.

Frumvarpið á sér langan aðdraganda sem nær aftur til ársins 2007 þegar skipuð var nefnd um endurskoðun umferðarlaga. Hún skilaði af sér drögum að frumvarpi í júní 2009. Frumvarpið var lagt nokkrum sinnum fram í kjölfarið en varð aldrei útrætt og var á 143. löggjafarþingi horfið frá því að leggja fram heildarfrumvarp til nýrra umferðarlaga heldur tekin út þau atriði sem brýnt þótti að yrðu að lögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á umferðarlögum sem miða að því að innleiða tilteknar EES-gerðir sem taldar eru upp í 11. gr. frumvarpsins. Umfjöllun nefndarinnar afmarkaðist að mestu leyti við breyttar reglur varðandi létt bifhjól og endurmenntun bílstjóra sem stjórna stórum ökutækjum í farþega- og vöruflutningaskyni.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til ný skilgreining á léttum bifhjólum. Samkvæmt c-lið ákvæðisins telst létt bifhjól vera vélknúið ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. og er með sprengirými sem er ekki yfir 50 rúmsentímetrar sé það búið brunahreyfli eða með samfellt hámarksafl sem er ekki yfir 5kW sé það búið rafhreyfli. Þá er lagt til að létt bifhjól greinist í tvo flokka. Í flokk I falla létt bifhjól sem eru ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. og í flokk II falla bifhjól sem eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst., allt að 45 km á klst. Samkvæmt skilgreiningu á léttu bifhjóli í 2. gr. umferðarlaga telst létt bifhjól vera bifhjól sem búið er brunahreyfli sem er ekki yfir 50 rúmsentímetrar eða búið rafhreyfli og er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. Þau léttu bifhjól sem með frumvarpinu er gert ráð fyrir að falli í flokk I falla nú hins vegar í flokk reiðhjóla, samanber c-lið skilgreiningar 2. gr. umferðarlaga á reiðhjóli. Því að færa létt bifhjól úr flokki reiðhjóla í flokk bifhjóla fylgja nokkrar aðrar breytingar sem rétt er að fjalla um.

Varðandi ökuréttindi er það þannig samkvæmt 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga að enginn má stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri gefur út. Samkvæmt 52. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um ökunám og ökukennslu og er fjallað um skilyrði ökuréttinda í reglugerð nr. 830/2011. Samkvæmt reglugerðinni eru gerðar eftirfarandi kröfur til ökuréttinda fyrir létt bifhjól sem yrðu í flokki II samkvæmt frumvarpinu: 15 ára lágmarksaldur, 12 stunda bóklegt nám, 8 stunda verklegt nám og skriflegt og verklegt ökupróf. Í tilskipun 2006/126/EB um ökuréttindi eru gerðar vægar kröfur til ökuréttinda fyrir létt bifhjól í flokki II en hins vegar eru ekki gerðar neinar kröfur til ökuréttinda vegna léttra bifhjóla í flokki I. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé í höndum ráðherra, í samráði við Samgöngustofu og hagsmunaaðila, að útfæra nánar skilyrði ökuréttinda umfram það sem leiðir af skuldbindingum íslenska ríkisins að EES-rétti. Fyrirséð er að ef kæmi til slíkra skilyrða yrðu þær kröfur sem gerðar væru öllu vægari en þær sem gerðar eru til léttra bifhjóla í flokki II. Að mati nefndarinnar er ekki þörf á því að útgefin verði sérstök ökuréttindi fyrir létt bifhjól í flokki I. Hingað til hafa ekki verið gerðar slíkar kröfur og sömu reglur gilt um létt bifhjól og reiðhjól. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem styður það að því fyrirkomulagi verði breytt og leggur nefndin því til breytingu þess efnis. Nefndin telur þó rétt að ákveðinn lágmarksaldur þurfi til að vera heimilt að aka léttum bifhjólum í flokki I og telur eðlilegt í því sambandi að miða við að börnum sem eru orðin 13 ára verði það heimilt. Þá beinir nefndin því til innanríkisráðuneytisins að það hlutist til um að útgefið verði fræðsluefni sem ökumenn léttra bifhjóla í flokki I geti kynnt sér. Verði þar umfjöllun um helstu atriði er snúa að akstri hjólanna og helstu atriði umferðarreglna og reglna sem gilda um akstur hjólanna.

Með þessu teljum við í umhverfis- og samgöngunefnd að við séum að gera almenningi kleift að nota sér hin léttu bifhjól eða vespur sem ná eingöngu 25 km hámarkshraða, mjög umhverfisvænn og þægilegur ferðamáti, sem við teljum að sé nauðsynlegt að falli undir þau skilyrði sem ég nefndi hér rétt áðan.

Varðandi skráningarskyldu þá falla létt bifhjól í flokk I undir skilgreiningu laganna á reiðhjóli eins og áður segir og hafa því ekki verið skráningarskyld. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga skal bifreið, bifhjól, torfærutæki eða dráttarvél skráð og skráningarmerki sett á slíkt farartæki áður en það er tekið í notkun. Létt bifhjól í flokki I verða því skráningarskyld samkvæmt frumvarpinu og af því leiðir einnig að þau verða skoðunarskyld samkvæmt 67. gr. laganna. Ljóst er að af þeirri breytingu leiðir kostnað sem felst í gjaldi fyrir skráningu og skráningarmerki og gjaldi fyrir skoðun. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við skráningarskyldu léttra bifhjóla þar sem talið var að áhrif þessa væru of íþyngjandi. Á hinn bóginn kom einnig fram að erfitt geti verið að greina mun á léttum bifhjólum sem nú eru skráningarskyld og þeim sem eru það ekki. Getur það meðal annars haft í för með sér að lögreglu getur verið erfitt að fylgja eftir reglum um skráningarskyldu þeirra bifhjóla sem eru skráningarskyld þar sem lítill sem enginn sýnilegur munur er á þeim. Nefndin tekur að vissu leyti undir þær athugasemdir að um íþyngjandi ákvæði sé að ræða en ljóst er að samkvæmt EES-reglum er ekki heimilt að undanskilja létt bifhjól í flokki I skráningarskyldu. Nefndin bendir á að reglur um skoðun léttra bifhjóla í flokki I þurfi að vera með tilliti til notkunar tækjanna og eðlis þeirra og ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er.

Varðandi vátryggingarskyldu og grundvöll ábyrgðar hvílir vátryggingarskylda á öllum skráningarskyldum vélknúnum ökutækjum samkvæmt 91. gr. umferðarlaga. Vátryggingarskyldan nær til þess tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis auk þess sem ökumaður skal tryggður sérstakri slysatryggingu, samanber 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Með því að létt bifhjól í flokki I verða skráningarskyld verða þau einnig vátryggingarskyld. Ljóst er að af vátryggingarskyldunni mun hljótast töluverður kostnaður fyrir eigendur slíkra bifhjóla og eru reglurnar því verulega íþyngjandi að þessu leyti. Að mati nefndarinnar er ekki þörf á því að kveða á um svo stranga vátryggingarskyldu, m.a. vegna þess að notkun léttra bifhjóla í flokki I er að mestu leyti lík notkun reiðhjóla, þau eru notuð á gangstéttum og göngustígum og ná mjög takmörkuðum hraða. Samfara þessu telur nefndin einnig rétt að um hjólin gildi sömu ábyrgðarreglur og um reiðhjól. Þannig gildi ekki hin stranga hlutlæga ábyrgð sem almennt gildir um skráningarskyld ökutæki. Forsenda þeirrar ströngu ábyrgðar er að af notkun slíkra ökutækja getur hlotist mikið tjón ef óhapp verður. Líkt og að framan greinir telur nefndin þau rök ekki eiga við um létt bifhjól í flokki I. Nefndin leggur því til breytingar þessu til samræmis en bendir jafnframt á að eigendur slíkra bifhjóla hafa frjálst val um að kaupa tryggingar fyrir hjólin og ökumenn þeirra af starfandi vátryggingafélögum.

Varðandi reglur um notkun bifhjóla eru í 2. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 41. gr. laganna um reglur um akstur bifhjóla. Samkvæmt ákvæðinu verður heimilt að aka léttum bifhjólum í flokki I á vegum, gangstéttum, hjólastígum eða gangstígum. Sé léttu bifhjóli í flokki I ekið á gangstétt eða gangstíg ber því að víkja fyrir gangandi umferð. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. ákvæðisins er þó lagt til að óheimilt verði að aka léttu bifhjóli í flokki I á akbraut með 50 km hámarkshraða og yfir. Af þessu leiðir að aðeins verður heimilt að aka léttum bifhjólum í flokki I á takmörkuðum fjölda gatna í þéttbýli og ekki utan þéttbýlis, þar sem alla jafna er hærri hámarkshraði. Nefndin bendir á að ekki eru slíkar takmarkanir við notkun reiðhjóla þar sem hjóla má þeim á öllum götum óháð hámarkshraða. Takmarkanir á notkun léttra bifhjóla í flokki I á þennan hátt eru líklegar til að koma helst niður á notendum þeirra á landsbyggðinni þar sem notkun þeirra verður verulega takmörkuð en á sömu götum verður hins vegar leyfilegt að hjóla á reiðhjóli. Ljóst er að notkun bæði reiðhjóla og léttra bifhjóla í flokki I á götum og vegum þarfnast sérstakrar varúðar þar sem um hægfara tæki er að ræða. Á þeim er þó ekki slíkur munur að rétt sé að takmarka notkun léttra bifhjóla í flokki I með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Nefndin leggur því til þá breytingu að þessi málsliður ákvæðisins falli brott.

Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal barn sjö ára eða yngra sem er farþegi á bifhjóli sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Ekki er í ákvæðinu vísað til barnastóls af viðurkenndri gerð enda geta þeir verið afar misjafnir. Þó mætti kveða á um nauðsynlegan öryggisbúnað í reglugerð. Leggur nefndin því til að við 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins bætist almenn reglugerðarheimild ráðherra til að kveða á um notkun viðurkennds öryggis- og verndarbúnaðar fyrir börn sem eru farþegar á bifhjólum.

Nú er komið að lið sem var töluvert umdeildur í frumvarpinu og sneri að endurmenntun atvinnubílstjóra. Við fengum fjölmarga aðila sem höfðu áhyggjur af þessu atriði en það var mikill samhugur og samstaða um það í nefndinni að við mundum tryggja það að ákvæði um endurmenntun hefði ekki áhrif á atvinnuréttindi atvinnubílstjóra og ákvæðið væri ekki svo íþyngjandi að það mundi hafa áhrif á starf þeirra.

Í 5. gr. frumvarpsins er ákvæði um endurmenntun atvinnubílstjóra á fimm ára fresti. Lagt er til í ákvæðinu að ráðherra kveði nánar á um tilhögun endurmenntunarinnar í reglugerð. Ákvæði um endurmenntun atvinnubílstjóra á sér langan aðdraganda en það var fyrst sett með reglugerð árið 2006, sem síðar var talið að bryti gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem um íþyngjandi ákvæði væri að ræða sem setti skorður við atvinnufrelsi atvinnubílstjóra, en kveða þyrfti á um það í lögum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram það mat að ákvæðið eins og það er nú útfært í frumvarpinu fari ekki gegn ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Atvinnufrelsi megi setja skorður með lagaheimild enda krefjist almannahagsmunir þess. Skilyrði stjórnarskrárinnar um almannahagsmuni verði að telja fullnægt, enda sé þjálfuninni einkum ætlað að viðhalda hæfi og menntun ökumanna og bæta þannig öryggi á vegum og öryggi ökumannanna sjálfra. Þá skal á það bent að þau ökutæki sem hér eru undir eru stór og þung og geta borið fjölda farþega. Hæfi ökumanna þeirra skiptir því miklu máli.

Ákvæði um endurmenntun atvinnubílstjóra hefur alla tíð verið umdeilt en á síðustu árum hefur verið reynt að ná sáttum um það, m.a. með skipan starfshóps hagsmunaaðila í september 2012 sem falið var að útfæra endurmenntunina. Ljóst er að íslenska ríkið getur ekki skotið sér undan skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum en vegna hans er nauðsynlegt að kveða á um endurmenntun atvinnubílstjóra í lögum. Nefndin bendir á að endurmenntun atvinnubílstjóra veitir þeim einnig réttindi til aksturs annars staðar á EES-svæðinu. Mikilvægt er að útfærsla endurmenntunarinnar verði með þeim hætti að hún verði sem minnst íþyngjandi og að gætt verði að því að við framkvæmd endurmenntunar verði kostnaði haldið í lágmarki. Bendir nefndin í því sambandi á mikilvægi þess að heimilt verði að ljúka endurmenntun með fjarnámi og leggur til breytingartillögu þess efnis. Með því yrði sem minnst röskun á högum atvinnubílstjóra, hægt yrði að lágmarka fjarvistir frá vinnu og ekki um mikil ferðalög þeirra að ræða. Þá tekur nefndin einnig fram að umrætt námskeið verður próflaust. Allir þeir sem sækja endurmenntun munu halda sínum réttindum. Hafa verður í huga við útfærslu endurmenntunarinnar að hún miðist að nokkru leyti við íslenskar aðstæður sem geta verið mjög ólíkar þeim aðstæðum sem eru í Evrópu. Markmið endurmenntunarinnar er að efla kunnáttu og þekkingu atvinnubílstjóra og þannig að auka öryggi á vegum landsins og í því sambandi þarf að taka tillit til íslenskra aðstæðna. Að þessu virtu telur nefndin nauðsynlegt að kveðið verði á um endurmenntunina í umferðarlögum en ráðherra falin nánari útfærsla hennar þar sem gætt verði framangreindra sjónarmiða.

Við teljum að í þessu tilliti sé mjög mikilvægt við setningu þessarar reglugerðar að námskeiðið verði eins og ég lýsti hér áðan, það verði þátttakendum að kostnaðarlausu og muni ekki íþyngja atvinnubílstjórunum á neinn þann hátt sem ábendingar voru um í umhverfis- og samgöngunefnd. Mjög margir atvinnubílstjórar höfðu áhyggjur af þessu ákvæði, sáu fyrir sér langt og mikið námskeið sem mundi sérstaklega bitna á minni aðilum, einkaaðilum sem keyra víðs vegar um landið, það mundi bitna sérstaklega á þeim sem eiga um langan veg að fara og námskeiðið yrði svo íþyngjandi að einhverjir gætu misst starfsréttindi sín. Það er ekki tilgangurinn. Þvert á móti teljum við að nú séum við búin að fullnægja skyldum okkar samkvæmt EES-samningnum, við séum búin að tryggja umferðaröryggi og endurmenntun en um leið það sem er mjög mikilvægt í þessu samhengi; atvinnuréttindi þeirra atvinnubílstjóra sem keyra ferðamenn hringinn í kringum landið, sem betur fer í sífellt meiri mæli. Það var samróma álit nefndarinnar að farið yrði með þetta atriði á þennan hátt.

Varðandi umferðareftirlit Samgöngustofu þá er í 8. og 9. gr. frumvarpsins kveðið á um auknar heimildir umferðareftirlitsmanna Samgöngustofu. Við meðferð málsins bárust nefndinni þær upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu að hafin væri frekari vinna í málinu eftir ábendingar nefndarinnar. Í júní sl. var starfshópur fulltrúa ráðuneytisins, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra stofnaður sem falið var að meta kosti og galla þess að flytja eftirlitið frá Samgöngustofu til lögreglu og koma með tillögur að slíkum flutningi. Var það niðurstaða áfangaskýrslu starfshópsins að hægt væri að mæla með flutningi umferðareftirlitsins til lögreglunnar, að því gefnu að tryggt væri að verkefninu yrði áfram sinnt og umfang þess minnkaði ekki. Í ljósi þessa leggur nefndin til að 8. og 9. gr. frumvarpsins verði felldar brott.

Þetta var eitt af þeim fjölmörgu ágreiningsefnum sem komu til umræðu í nefndinni. Það voru sterk rök fyrir því að umferðareftirlitið ætti kannski frekar betur heima hjá lögreglunni en hjá Samgöngustofu, lögreglumenn færu með eftirlit á vegum landsins og eðlilegra væri að þetta eftirlit færi fram hjá þeim þótt það sé kannski annars eðlis en þeirra starf.

Ég vil svo þakka nefndinni fyrir góð vinnubrögð. Við höfum þetta mál lengi til umfjöllunar, kynntum okkur það ítarlega og fengum margar ábendingar. Við vorum sammála um að það er gríðarlega mikilvægt að hin léttu bifhjól, eða hinar svokölluðu vespur, verði áfram á götum. Það kom í ljós að slysatíðni af þeim er afar lítil og aðilar frá Barnaheillum og Félagi eldri borgara bentu á að þetta væru umhverfisvæn og örugg ökutæki og það væri mikil synd ef sækja þyrfti sömu réttindi vegna þeirra og gilda um önnur létt bifhjól, eða svokallað skellinöðrupróf. Þá sögðu eldri borgarar að þetta væru farartæki sem hefðu nýst eldri borgurum í sífellt meiri mæli, þau væru örugg og gott að ferðast á þeim. Við í nefndinni ákváðum að 13 ár væri hæfilegur lágmarksaldur og beinum því svo til ráðherra að hann móti reglur um hvernig eigi að fara með verndar- og öryggisbúnað fyrir börn sem eru farþegar á slíkum hjólum. Við töldum að það væri óþarfi að tjón af völdum þessara hjóla væru vátryggingarskyld, en bendum á að eigendum þeirra sé frjálst val um að kaupa tryggingar fyrir hjólin og ökumenn þeirra af starfandi vátryggingafélögum.

Að lokum ítreka ég þakkir mínar til nefndarinnar. Okkur hefur enn á ný tekist að ná sátt um stórt mál. Nefndin er samstiga og hefur unnið vel, bæði meiri hluti og minni hluti. Ég á ekki von á öðru en að það haldist óbreytt.