144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

umferðarlög.

102. mál
[16:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs. Ég þakka formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir þessa yfirferð sem var góð. Eins og hann kom réttilega inn á er ánægjulegt hversu mikil sátt náðist um málið af því þetta eru umdeild málefni og margar misjafnar skoðanir á lofti. Ég er persónulega mjög ánægður með niðurstöðuna í öllum þeim málum sem við tókum fyrir í þessu frumvarp.

Ég ætla að fara yfir nokkur þeirra, eins og léttu bifhjólin eða svokölluðu rafmagnsvespurnar. Sumar athugasemdirnar felast í því að það gangi ekki að hafa engin bönd á því og að aksturinn væri svolítið frjálslegur á götum landsins og gangstéttum. Við bentum á það í nefndinni að til þess að koma böndum á þetta skiptir mestu máli að farið sé að gildandi umferðarreglum, það þarf ekki frekari kvaðir. Samkvæmt umferðarlögum er bannað að reiða fólk ef ökumennirnir eru undir 15 ára aldri og því þarf að framfylgja, auk þess er hjálmaskylda fyrir 15 ára og yngri. Foreldrarnir bera ásamt skólanum sameiginlega ábyrgð á því að fræða krakkana og sjá til þess að þau fari eftir þeim reglum sem gilda, þá á þetta að geta farið þokkalega fram. Með þeim breytingum sem við gerum núna, um 13 ára aldurstakmark, skráningarskyldu og annað, verður þetta aðeins formfastara. Ég hvet foreldra landsins til þess að afla sér upplýsinga og fræða börnin og vonandi verða haldin námskeið í framhaldi af þessari lagabreytingu. Ég held að það eigi alveg að vera hægt að koma böndum á þessa notkun án þess að setja frekari lög um hana.

Næst ætla ég að koma að endurmenntun atvinnubílstjóra sem hefur verið deiluefni til margra ára og hefur mikið gengið á, eins og var farið yfir áðan. Niðurstaðan þar er held ég mjög farsæl fyrir alla aðila. Eins og atvinnubílstjórar bentu á sjálfir eru þeir alveg tilbúnir í endurmenntun og tilbúnir til að fræðast um það sem skiptir máli, um það sem er nýtt í öryggismálum, skyndihjálp og öðru, hvernig aðstæður eru hér á landi, læra á nýja tækni og fara yfir það sem er að gerast í þessum málaflokki. Það er mikilvægt. Þá skiptir miklu máli að við nýtum þá reynslu sem Íslendingar hafa af því að stunda ökunám á internetinu. Það er kannski ástæðan fyrir því að ekki var gert ráð fyrir því í upphaflegum drögum og í tilskipun Evrópusambandsins varðandi þetta mál, af því að Ísland er mjög langt komið í rekstri ökuskóla á internetinu. Það þekkist varla í Evrópu, þótt slíkur skóli sé til í Austurríki. Við eigum að nýta þá þekkingu sem við höfum og það gerum við í frumvarpinu, sem er mjög ánægjulegt. Það ætti að geta haldið kostnaði í lágmarki og aukið samkeppnina í þessu ökunámi og gert það að verkum að bílstjórar þurfi ekki að ferðast landshorna á milli og stöðva starfsemi sína í langan tíma til þess eins að fara á endurmenntunarnámskeið sem lýkur ekki með prófi. Ég held að þetta sé jákvætt fyrir alla og geti gagnast öllum og verði ekki íþyngjandi heldur áhugavert og mikilvægt.

Þetta hjálpar okkur líka að halda úti þessum námskeiðum á internetinu og í fjarnámi. Þá er auðveldara að gera það á fleiri tungumálum. Raunin er sú að við þurfum miklu fleiri rútubílstjóra og líka vörubílstjóra yfir sumartímann þegar meira er að gera hjá verktökum í jarðvegsvinnu auk þess sem ferðamenn eru fleiri. Það gæti vel verið að ökumenn frá öðrum löndum þyrftu að koma hingað í auknum mæli. Þá er gott að hafa námskeið fyrir íslenskar aðstæður klárt á nokkrum tungumálum. Það er miklu auðveldara í gegnum internetið. Þetta er frábær niðurstaða, að ég tel, sem er komin hér. Henni ber að fagna og mikilvægt er að framkvæmdin hjá Samgöngustofu taki mið af þeirri stefnumörkun sem er í nefndaráliti okkar með breytingartillögu. Við teljum mjög mikilvægt að henni sé fylgt.

Aðalmálið er það sem ég hef komið mest að og haft mestan áhuga á og það er umferðareftirlit Samgöngustofu, hvernig hægt sé að gera breytingar á því til þess að auka umferðaröryggi til muna. Eftirlitið var hjá lögreglunni en svo var ákveðið að efla eftirlit með þungaflutningum og öðru og Vegagerðin og lögreglan fóru í samstarf. Það gekk mjög vel og eftirlitið var mikið þar til Vegagerðin sagði upp samstarfinu. Eins og gerist oft og við þekkjum fóru stofnanir ríkisins að deila um fjármunina og hver kostnaðarskiptingin væri og í kjölfarið lognast eftirlitið út af. Í framhaldinu var tekið upp sérstakt eftirlit hjá Vegagerðinni sem er með takmarkaða heimild í umferðarlögum til að sjá um það. Þar af leiðandi er mjög takmarkað hvað umferðareftirlitsmennirnir, sem nú er búið að flytja frá Vegagerðinni yfir til Samgöngustofu, geta gert.

Lögreglumenn um allt land og yfirmenn sem skipa löggæsluna eru sammála um að þetta eftirlit eigi að vera hjá lögreglunni, að það hafi dregið smátt og smátt úr eftirliti af hálfu lögreglunnar með bæði þeim niðurskurði og mikilli aukningu ferðamanna, fókus lögreglunnar hefur verið á almenna umferð en ekki á þungaflutninga. Þeir sem starfa hjá Samgöngustofu segja líka að þeir hafi ekki þær heimildir sem þarf til þess að bregðast við því sem út af ber í umferðinni, því sem þeir sjá þegar þeir eru á vegum úti, og séu ekki í stakk búnir til að taka á öllum þeim vandamálum sem koma upp. Lögreglan og Samgöngustofa eru sammála um það — algjörlega sammála um það — að þetta eftirlit eigi betur heima undir handleiðslu lögreglunnar, að lögreglan sjái um það.

Þverpólitísk þingmannanefnd sem sá um að útdeila auknum fjármunum til lögreglunnar hefur gert bókun um þetta. Það var meginverkefni nefndarinnar að útdeila fjármununum þannig að það mundi efla löggæsluna. Þingmannanefndin kom með ábendingu um hægt væri að margfalda sýnileika löggæslunnar, auka hann til muna og efla þannig löggæsluna með því einu að færa eftirlitið frá einni ríkisstofnun til annarrar, það væri hægt að auka sýnilegt eftirlit án þess að auka kostnað. Það er mjög mikilvægt að við nýtum slíkt atriði til þess að auka umferðaröryggi en með þessu mun lögreglan vera mun sýnilegri á vegum landsins. Þeir sem sjá um þetta eftirlit munu í framhaldinu sjá um það sem lögreglumenn og geta því athugað betur ástand ökumanna og réttindi þeirra og munu geta brugðist við ef umferðarslys verður eða ef tilkynning berst um glæfralegan akstur eða ölvunarakstur, þeir verða mun fljótari að bregðast við slíkum hættum. Svo hafa niðurstöður úr könnunum og úttektum sýnt að hægt er að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm banaslysum í umferðinni með auknu og sýnilegra eftirliti lögreglu. Það er það sem vegur þyngst þegar fækka á umferðaróhöppum. Það hefur tekist undanfarið að fækka þeim og ég held að þetta muni skipta sköpum í því.

Ég er því ánægður með að nefndin sé algjörlega sammála um það. Í staðinn fyrir að auka heimildir eftirlitsmanna Samgöngustofu til þess að sinna þessu eftirliti er nær að færa eftirlitið til lögreglu sem hefur heimildirnar og þannig hægt að nýta fjármunina mun betur. Ég held að það skipti miklu máli að þetta takist sem fyrst af því við þekkjum það að umferðin er að aukast mikið. Erlendir ferðamenn eru einn stærsti áhættuþátturinn núna, þeir lenda í slysunum og oft minni slysum. Þess vegna skiptir miklu máli að gera lögregluna sýnilegri og ef hægt er að gera það án aukinna fjármuna eigum við að nýta okkur það. Ég vildi þess vegna leggja sérstaka áherslu á samstöðu í nefndinni og þann vilja nefndarinnar að lögreglan sinni þessu eftirliti hér eftir.

Ég vona að hv. þingmenn komi til með að styðja þessar breytingartillögur og að framkvæmdarvaldið vinni eftir nefndarálitinu og þeirri stefnumörkun sem kemur fram þar.