144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fréttum undanfarið hefur það komið fram að að minnsta kosti einn viðskiptabankanna þriggja hafi ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum lánum. Þetta gerist á sama tíma og stýrivextir lækka og jafnframt hefur verðbólgan lækkað verulega. Þetta kemur mjög á óvart því að margir neytendur töldu að vextir mundu lækka þegar utanaðkomandi aðstæður væru jákvæðar sem þær eru virkilega nú. Þessar aðstæður virðast þó ekki vera öllum jafn jákvæðar eða hagstæðar. Núna þegar stýrivextir hafa lækkað og verðbólgan er í sögulegu lágmarki hækka viðskiptabankarnir vexti á lánum sínum. Það vekur auðvitað upp spurningar sem fróðlegt gæti verið að fá svör við.

Getur verið að verðtryggð lánasöfn bankanna séu það stór og bankarnir sjái hag sinn í því þegar verðbólgan er há? Framkvæma þeir einhverja aðgerð sem gerir það að verkum að verðbólgan hækkar? Hvað er málið? Getur verið að þeir hagnist um háar upphæðir við hvert prósentustig sem verðbólgan hækkar? Er núna verið að grípa til varúðarráðstafana sem tryggi þeim svipaðan hagnað og þegar verðbólgan er há? Hvað er eiginlega í gangi?

Vert er að geta þess að eingöngu er hér um vangaveltur að ræða en óhætt er að segja að sú mynd sem maður fær upp í hugann af þessum gjörðum sé ekki falleg. Það er ekki nóg með að vextir hækki heldur hafa þjónustugjöld bankanna hækkað, auk þess sem farið er að rukka fyrir þjónustu sem áður var gjaldfrjáls.

Samkvæmt upplýsingum innan úr Neytendasamtökunum kemur þessi gjaldtaka harðast niður á eldri borgurum og þeim sem ekki greiða reikninga í heimabanka sem og öðrum sem ekki eru með tölvu eða kunnáttu til að nýta sér möguleika tölvunnar. Þessi háttsemi fjármálastofnana er alls ekki í lagi og ég hvet okkur öll sem hér störfum til að skoða þetta nánar og taka höndum saman til að tryggja betur hag neytenda.