144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp og tek undir með hv. þingmanni, það er full ástæða til að fagna því að fjárhagur bæði Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum var nokkuð réttur í síðustu fjárlögum og var aukning til þessara stofnana bæði í formi rannsóknafjár og til framkvæmda á Hólum í Hjaltadal. Það er full ástæða til að fagna því auk 6. gr. heimildar sem heimilar landbúnaðarháskólanum að selja eignir og láta andvirðið renna upp í skuldir. Það er full ástæða til að fagna líka þeirri skilgreiningu að það megi láta það renna upp í skuldir.

Hv. þingmaður spyr út í sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Bifrastar og Háskólans á Hólum sem kom fram í fréttum í gær. Ég held að þar hafi komið fram að ráðherra talaði um að þetta væri mál sem ætti að skoða og ætti að setja í gang vinnu við það. Það voru engar fullyrðingar um að þessi skref yrðu stigin en ég vil þó segja að það er full ástæða til að fagna því að menn eru búnir að slá út af borðinu sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands vegna þess að það eru þrjú sjónarmið sem þarf að hafa í huga og hv. þingmaður kom inn á þau áðan, gæði menntunarinnar, að námið sé framsækið og skólarnir hafi ákveðið sjálfstæði til að þróa það áfram að þörfum atvinnugreinarinnar. Hins vegar eru fjárhagsleg rök og svo auðvitað byggðasjónarmið sem hafa líka áhrif í Borgarfirði, Skagafirði og Hjaltadal.

Varðandi þessa hugmynd hæstv. ráðherra held ég að það sé full ástæða til að taka því af jákvæðni, fara í þá skoðun hvort þarna séu samlegðaráhrif sem uppfylli þau sjónarmið sem ég rakti hér áðan og hv. þingmaður gerði líka. Það þarf ekki að fara í það með einhverja fyrirframneikvæðni að leiðarljósi en við þurfum að hafa í huga að þessi sjónarmið séu uppfyllt og það er það sem ráðherra boðar að eigi að gera í framhaldinu. Við getum öll verið sammála um að það er mikilvægt að hafa hér öflugan skóla, m.a. í landbúnaðar- og matvælafræðum, vegna þess að þetta (Forseti hringir.) er sóknargrein sem er mögulegt að stórefla í íslensku atvinnulífi.