144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að tala aðeins meira um umferðaröryggismál og umferðina. Það eru búnar að vera í fjölmiðlum að undanförnu gleðilegar fréttir að vissu leyti, en ekki öllu, um hvað hefur dregið úr alvarlegum umferðarslysum. Það gleðilega í þessum fréttum er það hvað banaslysunum hefur fækkað mikið og er hlutfallið með því lægsta sem hefur sést og það lægsta sem hefur sést hér í að minnsta kosti tíu ár. Svoleiðis á það að vera, þarna hefur náðst árangur. Það má örugglega þakka þennan árangur mjög mörgum hlutum, það er verið að vinna að þessu á mörgum stöðum.

Það sem er ekki jafn gott við þessar fréttir er að hinum alvarlega slösuðu í umferðarslysum fækkar sama sem ekki neitt. Þeim látnu fækkar en alvarlega slösuðum fjölgar þannig að samtalan er svipuð. Þarna þarf að vinna betur. Helsta ástæðan fyrir þessu er kannski að bílarnir eru að verða betri þannig að fólk sleppur frekar lifandi úr slysunum en er samt sem áður alvarlega slasað. Þarna þurfum við að taka hlutverk okkar alvarlega, vinna þannig að uppbyggingu í samgöngumálum og gera vegakerfið líka öruggara þannig að það dragi úr slysunum, auka eftirlit á vegum með löggæslu og öðru slíku. Það hefur sýnt sig að aukið eftirlit lögreglu getur fækkað hverjum fimm banaslysum í umferðinni um fjögur. Það hefur tekist oftar en einu sinni að hafa ekkert banaslys á sjó, á síðustu 20 árum þrisvar sinnum, og í fluginu mun oftar, meira en tíu sinnum. Þetta er því hægt og við eigum að stefna á það og taka þetta hlutverk okkar hér alvarlega af því að við getum gert gagn.