144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um þann þátt sem snýr að gjaldtöku fyrst og fremst í þessu frumvarpi. Það er rétt, sem komið hefur fram, að það er líka margt gott þarna, meðal annars að fá náms- og starfsráðgjafa inn í námsorlofssjóði. Það er vert að vekja athygli á því að vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram í þingsal þá voru fjármunir settir í það sem annars var ekki búið að gera ráð fyrir, annars hefðu þeir bæst við þann sjóð.

Varðandi rafrænu námsgögnin þá erum við hlynnt því að sú útgáfa verði aukin, en við getum ekki fallist á þessa heimild til gjaldtöku. Við viljum frekar stefna í átt að jöfnuði í skólakerfinu og hefðum talið borð fyrir báru núna, miðað við fjárlög, að tilraunaskólar hefðu verið fengnir til verksins þar sem ríkið hefði greitt fyrir þann kostnað og fyrir fram ákveðnar greinar hefðu verið settar þar undir til að búa til þessa tilraunakennslu í staðinn fyrir að þetta sé opið upp á gátt og nemendur borga.