144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem mun gerast með sameiningu þessara tveggja stofnana að þeirri nýju stofnun sem hér er um að ræða er ekki bara það að verkefnin fari saman frá Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, eins og ég rakti hér, heldur mun stofnunin líka hafa stjórnsýsluhlutverk að lögum. Ég tel það farsælt að ýmis stjórnsýsluverkefni sem núna eru í ráðuneytinu flytjist inn í þá stofnun. Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun um að einstaka starfsmenn sem starfa innan vébanda mennta- og menningarmálaráðuneytisins færast yfir í stofnunina. Jafnframt var því lýst yfir að þeim starfsmönnum sem núna hafa störf í Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun mun verða boðið starf í hinni nýju stofnun.

Ég held að með því að skerpa á stjórnsýsluþættinum með þessum hætti hafi ráðuneytið betra tækifæri til að sinna því gríðarlega mikilvæga starfi sem mun reyna meira og meira á, sem er stefnumótun, stefnumótun til lengri tíma og þær áherslur sem slíku starfi fylgja. Það hefur til dæmis að gera með hvernig verður ráðið inn í ráðuneytið í framtíðinni, hvaða tegundir af starfsmönnum, ef má nota slíkt orðalag, virðulegi forseti, verða ráðnir og hvaða verkefnum þeir eigi að sinna. Það er einmitt þetta, að vera þá ekki að ráða endilega til að sinna stjórnsýslunni, heldur meira til þess að horfa á langtímastefnumótun. Ég held að það skipti verulegu máli.